VHE vantar starfsmenn
Guðgeir Sigurjónsson, framkvæmdastjóri VHE á Reyðarfirði, segir fyrirtækið vanta smiði á Egilsstöðum og vélvirkja til starfa á Reyðarfirði. Mannaflaþörfin hafi meðal annars verið leyst með erlendum starfsmönnum.
Vélsmiðjan undirritaði í vikunni formlega samninga við Vatnajökulsþjóðgarð um byggingu gestastofu á Skriðuklaustri. Fyrirtækið hefur þjónustað álverið í Reyðarfirði og tók við byggingu Egilsstaðaskóla í vetur.
Guðgeir segir byggingu gestastofunnar skjóta frekari stoðum undir starfsemi fyrirtækisins á Austurlandi. Hann gerir ráð fyrir að 10-15 smiðir á vegum VHE vinni að byggingunni. Flestir þeirra séu þegar til staðar en nokkur störf séu laus og verði auglýst. „Okkur vantar 4-5 smiði,“ segir hann. „Okkur hefur gengið illa að fá smiði í sumar á Egilsstöðum. Á Reyðarfirði vantar okkur vélvirkja, vélsmiði og rafvirkja. Við höfum meðal leyst þetta með erlendum starfsmönnum,“ segir hann.
Hann segir verkefnastöðu víða hafa verið góða í sumar en staðan gæti breyst með haustinu.