Við eigum að fjárfesta í menntun

Við Íslendingar erum almennt sammála um að menntun sé ein af grunnstoðum samfélagsins. Það er því merkilegt að á sama tíma og núverandi stjórnvöld státa sig af góðum árangri í fjármálum ríkisins sé skólakerfið í miklum fjárhagsvanda. Leikskólarnir eru svo fjársveltir að starfsfólkið talar um að það sé tilneytt til að skerða þjónustu við nemendur. Grunnskólarnir geta ekki sinnt sínum lögbundnu skyldum og kjarasamningar grunnskólakennara eru í uppnámi.

 

Í framhaldsskólunum eru kennarar að glíma við vandamál vegna illa undirbúinnar styttingar náms. Stjórnvöld hafa úthýst nemendum eldri en 25 ára og rekstrarvandi margra framhaldsskóla er gríðarlegur. Háskólanám er svo dýrt að verulegur fjöldi nemenda þarf að vinna mikið með námi. Hátt íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu gerir það svo að verkum að fólk sem ekki getur búið í foreldrahúsum eða hjá ættingjum, t.d. nemendur af landsbyggðinni, á í vandræðum með að fjármagna nám sitt.


Lánakerfi fyrir hina ríku

Það liggur ljóst fyrir að það þarf að auka verulega við það fjármagn sem ætlað er í menntamál. Ég batt því vonir við nýja LÍN frumvarpið og þar er vissulega ýmislegt gott. Námsstyrkir, eins og lengi hafa þekkst í nágrannalöndum okkar, geta bætt námslánakerfið verulega og breytt miklu.

 

En það er merkilegt að um leið og bætt er úr ýmsu er annað eyðilagt. Hvernig getur það verið til bóta að afnema tekjutengingu afborgana? Hvernig getur það verið til bóta að hækka vexti námslána? Hvernig getur það verið til bóta að lána aðeins til sjö ára? Því miður vegur LÍN frumvarpið að jafnrétti til náms og fjölbreytni í menntun. Það lánakerfi sem LÍN frumvarpið felur í sér mun nýtast þeim best sem geta búið í foreldrahúsum og eru að mennta sig til hátekjustarfa.

Menntun á að vera fyrir alla

Það sem íslenskt menntakerfi þarf er grundvallarbreyting á því hvernig stjórnvöld líta á menntun. Jafnrétti til náms á að vera leiðarljósið. Við eigum að stefna að gjaldfrjálsum leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla svo allir nemendur sitji við sama borð. Lánakerfi námsmanna á að stuðla að því að jafna stöðu allra til náms og leggja áherslu á að lánin séu sniðin að þeim sem mest þurfa á þeim að halda.

Ingibjörg Þórðardóttir
Höfundur er framhaldsskólakennari og skipar 4. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar