Við þurfum á fólki eins og Maríu að halda
Ég man ekki nákvæmlega hvenær ég kynntist Maríu Hjálmarsdóttur. Eflaust hefur það verið í grunnskóla og kringum skólavöllinn. María var afburða íþróttakona með mikið keppnisskap og lét okkur strákana finna fyrir því, bæði körfubolta og fótbolta. Hún sigraði í flestum þeim íþróttakeppnum sem hún tók þátt í og ef hún tapaði varð hún brjáluð, svo brjáluð að það bókstaflega sauð á henni.Ég var svo heppinn að eignast hana sem vinkonu og hún er ein af þeim manneskjum sem nær alltaf að sjá það góða í öðrum. Viðurkenni fúslega að ég var ekki alltaf gáfulegur ungur maður en aldrei tapaði María trúnni á mann og hvatti áfram.
María fór svo í nám erlendis og ég fylgdist með henni af aðdáun. Þar var hún engu síðri en í íþróttakeppnunum í gamla daga, en BA-verkefnið hennar var að koma sjónvarpsþættinum Klovn á framfæri í íslensku sjónvarpi. Þetta er dæmigerð María, að setja sér markmið um að koma danskri sjónvarpsþáttaröð á framfæri í miðli sem á þeim tíma forðaðist allt nema amerískt afþreyingarefni. María sannfærði miðilinn og landaði BA-gráðunni í leiðinni, sigur fyrir Maríu og sigur fyrir okkur sem fengum að njóta. Hún lét ekki staðar numið þar heldur kláraði meistaragráðu í nýsköpun og frumkvöðlafræðum.
Að námi loknu flutti María aftur til Íslands og ekkert annað kom til greina í hennar huga en að koma aftur heim á Austurland og leggja sitt af mörkum til að gera samfélagið betra. Hún hefur barist fyrir málefni sem er gríðarlega mikilvægt fyrir Austurland og snýr að flugsamgöngum og uppbyggingu ferðaþjónustu. Styrkleikar Maríu skína þar enn og aftur í gegn, það að vinna með öðrum og láta bestu hugmyndina sigra umfram allt annað.
Við þurfum á fólki eins og Maríu að halda á Alþingi vegna þess að hún hefur sýnt það í verki að hún vinnur fyrir bættun hag samfélagsins og vinnur með öðrum en ekki á móti þeim.
María er mikil fjölskyldumanneskja og umhyggjusöm móðir ansi sprækra tvíbura sem hún og sambýlismaður hennar ala upp af ást og virðingu. María Hjálmarsdóttir er afburðamanneskja og hún mun leggja sig alla fram til þess að vinna fyrir okkar kjördæmi og þess vegna ætla ég að kjósa hana.
María er Austfirðingur af öllu hjarta. Austfirðingar stöndum saman og kjósum hana inná þing.
María er í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.
Höfundur er ritari Fjarðalistans, lista félagshyggjufólks í Fjarðabyggð.