Við verðum að tala um Bjarna
Ég hef ekki skilið af hverju Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í frjálsu falli í skoðanakönnunum. Í mínum huga er hann eini hægri flokkurinn sem eitt og sér ætti að tryggja honum ein 30%. Í öðru lagi hamrar hann alltaf á einföldum skilaboðum um skattalækkanir. Þau skilja allir kjósendur, sérstaklega í núverandi umhverfi. „Ef skattar lækka þá hef ég meira á milli handanna og það er gott. Ég ætla að kjósa þann sem lækkar skatta.“
Á þessu hefur flokkurinn hamrað að minnsta kosti síðustu fjögur ár. Ég hélt að þetta væri skotheld vinningsformúla 2013.
Vissulega var landsfundur flokksins klúður. „Raðklúður“ ef svo má á orði komast. IceSave ekki auðvelt. En ég hélt að fylgistapið yrði aldrei mikið.
Eftir framboðsfund Sjálfstæðismanna á Egilsstöðum á fimmtudagskvöld skil ég hvað stendur þeim fyrir þrifum. Málið er að ég er ekki viss um að nokkuð sé hægt að gera í því.
Ónýt ímynd formannsins
Vandamálið heitir Bjarni Benediktsson og er formaður flokksins. Sama hversu góður og greindur maður Bjarni kann að vera er pólitískur trúverðugleiki hans enginn. Vafningsmálið er hluti af skýringunni. Annað er að Bjarni kemur úr yfirstétt, er og verður yfirstétt. Þetta tvennt tengja kjósendur við hann. Ímynd hans er laskaðri en svo að við hana verði gert. Og hann er andlit flokksins.
Það kann að vera að Sjálfstæðismenn geti reynt að fylgja sér saman um að verja hann. Ef þeir segja sjálfum sér nógu oft að hann sé frábær þá kannski virkar það. Gagnvart öðrum kjósendum virkar það engan vegin.
Sérstaklega ekki eftir að maður hefur horft á fylgismenn Sjálfstæðisflokksins hnakkrífast innbyrðis um Bjarna.
„Ég ver skipstjórann á meðan ég er um borð“
Kristján Þór Júlíusson má eiga að hann tók veglega til varna fyrir formanninn. Hann fór úr: „Ég ver skipstjórann á meðan ég er um borð“ yfir í allt því afneitum: „Við erum ekki að kjósa Bjarna Benediktsson hér,“ eða orð Valgerðar Gunnarsdóttur: „Við verðum að hætta að láta segja okkur að formaðurinn sé ómögulegur.“
Það getur ekki verið vænlegt til árangurs að hlusta ekki þegar væntanlegir kjósendur lýsa því sem þeir eru að hugsa um? Atkvæðin okkar gilda á landsvísu þegar allt er talið. Stærsti flokkurinn fær yfirleitt forsætisráðherraembættið og því erum við í og með að kjósa okkur forsætisráðherra.
Talað um alla aðra
Ég áætla að um það bil 60% tímans hafi farið í að tala um formanninn. Fimmtán prósent fóru í að vara við Framsóknarmönnum. Að þeir væru með óraunhæfar lausnir, að reyna að klína skít á Sigmund Davíð.
„Af hverju er enginn að tala um vini hans, Ólaf Ólafsson, Finn Ingólfsson, Kögunarmálið?“ spurði Kristján Þór.
Við getum reyndar alveg rifjað það upp að öll þessi nöfn hafa reglulega verið í umræðunni. Kristján gleymdi meira að segja að minnast á Gift, Samvinnutryggingar og Þórólf Gíslason.
Skilaboðin um að Framsókn myndi vinstri stjórn voru líka endurtekin, að þessu sinni í formi fullyrðingar um að Framsókn halli sér alltaf til vinstri. Einföld staðreyndasönnun sýnir að Framsókn hefur unnið lengur í ríkisstjórnum til hægri heldur en vinstri. Sá munur var orðinn til fyrir 1995 en hefur margfaldast síðan.
Tíu prósent tímans fóru í að skjóta á núverandi ríkisstjórn. „Ríkisstjórn hinna glötuðu tækifæra.“ Það hefur samt oft verið gert af meiri krafti enda Framsóknarflokkurinn óvænt orðinn aðal keppinauturinn.
Allir á móti
Önnur tíu prósent af tímanum reiknast mér til í að hafi farið að tala um hvað allir séu vondir við Sjálfstæðisflokkinn, sérstaklega fjölmiðlar. Oddvitinn spurði fundarmenn hvort þeir ætluðu að láta DV stjórna landinu.
Tilhneiging stjórnmálamanna er að halda því fram að fjölmiðlar séu á móti þeim. Kristján Þór þarf að grafa ansi duglega til að finna vísindalegar rannsóknir sem sýna fram á að fjölmiðlar móti skoðanir fólks. Þeir hafa hins vegar dagskrárvald, geta stjórnað hvaða mál eru í umræðunni. Og þar geta vissulega sum mál haft betri áhrif fyrir suma en aðra. Rannsóknirnar segja okkur ennfremur að fólk velur sér fjölmiðla sem henta skoðunum þess.
Að halda því fram að blað sem kemur út þrisvar í viku og mælist með 10-15% lestur stjórni landinu á tímum samfélagsmiðla þar sem erfiðra er að stjórna umræðunni en áður? Absúrd!
Ekki nóg að tala niður andstæðinginn
Þá eigum við eftir fimm prósent af tímanum í málefni. Í samgöngumál, ferðaþjónustuna, skuldavandaheimilanna, gjaldeyrismál, skattalækkanir. Ég held ég hafi varla skrifað niður minnispunkt frá þessum fundi um þessi mál.
Vandamál Sjálfstæðisflokksins er þrenns konar: Ónýt ímynd formanns, skilaboð sem ná ekki í gegn og viljaleysi til að horfast í augu við og viðurkenna eigin mistök. Að hætta að vera svona mikið fórnarlamb.
Í tveggja flokka kerfi virkar að tala niður eina andstæðinginn til að sýna að þú sért skásti kosturinn, þó ekki sé nema til að hinn komist ekki vil valda.
Í fjölflokkakerfi, eins og á Íslandi, er það erfiðara því það er alltaf þriðji kostur (eða fjórtándi...!). Sjálfstæðismenn verða að fara að tala um eigin stefnumál og útskýra þau fyrir kjósendum ætli þeir að ná árangri í þessum kosningum.
Annars verður „Free Fallin'“ með Tom Petty þemalag þeirra næstu þrjár vikurnar.