Við verðum að gera betur

„Það er ólýsanlega erfitt og sárt að upplifa að einhver hafi skaðað barnið þitt. Barnið sem þú hefur eytt lífinu í að vernda. Að uppgötva að enginn er óhultur þar sem ofbeldismanninn má oftast finna í nærumhverfinu en er ekki ókunnugt skrímsli í myrku húsasundi stórborgar. Það er svo óhugnanlegt að einhverjum finnist hann hafa rétt til að gera það sem honum sýnist án tillits til afleiðinganna sem geta litað restina af lífinu ef hjálpin berst ekki.

Áfallastreitan mætir með sinn lamandi kvíða, depurð og flótta, líkamlegu afleiðingarnar og þær sem hafa áhrif á samskipti og sambönd við aðra. Það er svo sárt að horfa á vandamálin verða stærri og verri ef ekki er gripið inn í sem fyrst og á réttan hátt. Þegar heimurinn hrynur er mikilvægt að aðstoðin sé nálæg, auðfáanleg og aðgengileg,“ segir Margrét Perla Kolka Leifsdóttir sem á dóttur sem var nauðgað.

Skortur á þjónustu á Austurlandi

Ein mesta meinsemd okkar samfélags er kynferðisofbeldi. Tölfræðin sýnir okkur að um faraldur er að ræða þegar. Samfélagið hefur að mörgu leyti brugðist þolendum kynferðisofbeldis.

Það er fátt sem snertir okkur dýpra en þegar brotaþoli er barn. Kerfið sem brotaþolar geta leitað til er fjársvelt og veikt. Þetta á ekki síst við á landsbyggðinni. Á Austurlandi sinnir félagsþjónustan í samstarfi við Barnahús þessum hópi í heimabyggð. Þjónustan er því sjaldnast veitt um leið og brot eru tilkynnt, fjarlægðin við sérfræðingana gerir það að verkum. Slík bið getur reynst þolendum þungbær og í raun er varla hægt að tala um neyðarþjónustu.

Þegar fullorðnir einstaklingar verða fyrir kynferðisofbeldi er staðan í raun enn verri. Á Austurlandi er engin neyðarmóttaka vegna nauðgana. Heilsugæslan reynir að sinna brotaþolum en þar eru sjaldnast sérfræðingar á þessu sviði á staðnum. Staðreyndin er sú að oft þarf að vísa þolendum áfram í kerfinu með þeim afleiðingum að þeir þurfa að segja sögu sína of oft sem jafnvel getur orðið til þess að þeir bakka út úr aðstæðunum.

Á Austurlandi er mikill skortur á sálfræðiþjónustu og skólasálfræðingar eru ekki starfandi inni í skólunum. Það væri gríðalega mikið framfaraskref ef sálfræðingarnir væru þar svo börn og ungmenni hefðu sem greiðastan aðgang að hjálpinni.

Stígamót veita bestu hjálpina

Fræðslu er mjög ábótavant og oft vita brotaþolar ekki hvert þeir eiga að snúa sér. Reynslan hefur sýnt okkur að bestu hjálpina er að finna hjá Stígamótum sem sinna hlutverki sem í raun ætti að vera á herðum ríkisins. Ráðgjafar Stígamóta koma á Austurland á tveggja vikna fresti og þá aðeins í Egilsstaði. Nauðgun fylgir oftast skömm og allar hindranir geta hamlað leit eftir hjálp. Að biðja einhvern að skutla sér í Egilsstaði til að hitta ráðgjafa frá Stígamótum er ekki einfalt skref.

Við trúum því að allir séu sammála um að við þurfum verulega að bæta þetta kerfi. Það skortir fremur fjármagn en vilja. Það er verið að vinna gott starf víða en samfélagsmein sem hefur áhrif á heilsu og líf eins margra og raun ber vitni ætti að vera forgangsmál.

Ingibjörg Þórðardóttir, skipar 3. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi
Margrét Perla Kolka Leifsdóttir, móðir brotaþola í kynferðisbrotamáli

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.