Viðunandi samgöngur fyrir alla
Undanfarið hefur talsvert verið fjallað um ástand innviða á Íslandi og meðal annars er mikil þörf á að endurnýja bundið slitlag víða kringum landið. Við þessar aðstæður er erfitt að krefjast nýs bundins slitlags á malarvegum en það er samt mikilvægt að halda því á lofti þar sem lífsviðurværi fólks er í húfi. Til dæmis hafa þeir sem búa innst í Berufirði, og þeir sem þurfa að aka veg 1 á þessu svæði, lengi barist fyrir því að vegurinn þar verði endurbyggður og malbikaður. Það er nú komið í framkvæmd. Einn af síðustu þéttbýliskjörnum landsins sem enn þarf að lifa með malarvegi er Borgarfjörður eystri.Heimamenn þurfa að sækja alla þjónustu til Egilsstaða því á Borgarfirði er engin búð, engin staðbundin heilbrigðisþjónusta, ekkert bílverkstæði, messuhald er lítið og svo framvegis. Hins vegar eru hér þrir gististaðir (og tveir í Njarðvík) ásamt góðu tjaldstæði og blómleg ferðamennska sem til stendur að stórauka næstu árin. Yfir sumarið eru reknir fjórir veitingastaðir en það má teljast einstætt í hundrað manna þorpi. Póstbíll, sem einnig sinnir rútuþjónustu, fer á milli fimm sinnum í viku. Í firðinum er fiskvinnsla og er fiskur fluttur með vörubíl til Egilsstaða og Reyðarfjarðar. Til stendur að reisa átöppunarverksmiðju sem mun flytja mörg tonn af glerflöskum með íslensku vatni sömu leið. Erfitt er að gera það á holóttum malarvegi.
Leiðin frá Egilsstöðum niður á Borgarfjörð er 71 km og þar af eru 28 km eða 40% malarvegur. Þetta eru 28 erfiðir kílómetrar, oft holóttir, með kröppum beygjum og blindhæðum. Um er að ræða þrjá malarkafla: Frá Eiðum að bænum Laufási, yfir Vatnsskarð eystra og Njarðvíkurskriðurnar. Malbikaði hlutinn sem fer þvert yfir Héraðsflóann er nú mjög gamall og í slæmu ástandi en samt betri en malarvegurinn frá Eiðum og niður eftir og talsvert betri en vegurinn yfir skarðið og skriðurnar. Fyrir nokkrum árum var malbikaður nokkra kílómetra kafli í Njarðvík þegar Njarðvíkurá var sett í stokk og var því langur malarkafli gerður að tveimum. Hugsanlega var áætlað að malbika lengri kafla því á mörgum nýlegum kortum er hann sýndur lengri en í raunveruleikanum. Ég veit þó ekki af hverju ekki var haldið áfram út Njarðvíkina. Vegurinn, sem hefur vegnúmer 94, var árið 2010 nefndur aðalbraut alla leið til Borgarfjarðar.
Umferð um veg 94 hefur aukist talsvert undanfarin ár þrátt fyrir fækkun íbúa í Bakkagerði, sem er nafnið á þorpinu á Borgarfirði eystri. Árið 2001 var sumardagsumferðin (júní til september) yfir Vatnsskarð eystra 106 bílar en sumarið 2017 voru þeir að meðaltali 310. Þá eru ótaldir þeir bílar sem fara út Hérað án þess að fara yfir skarðið. Lítið hefur verið gert við veginn annað en almennt viðhald þessi ár. Sumarið 2017 tók steininn úr þar sem miklar rigningar og mikil umferð lögðust á eitt til þess að skola í burtu slitlaginu og búa til holur. Erlendir ferðamenn, bæði dagsgestir og þeir sem höfðu pantað gistingu, sneru við eða lentu í því að sprakk á dekkjum. En Íslendingar eru einnig duglegir að sækja fjörðinn heim. Einstæð náttúra, frábærar gönguleiðir og aðgengileg lundabyggð en einnig ýmsir viðburðir draga til sín ferðamenn. Um Bræðsluhelgina í lok júlí fóru um 740 bílar á dag yfir Vatnsskarð eystra. Í fyrsta sinn í sögu Bræðsluhátíðar var talsverð rigning og mörgum fannst erfitt að keyra þangað og heim þrátt fyrir að Vegagerðin gerði allt sem hún gat til þess að halda veginum í sæmilegu ástandi. Helgina á undan var Dyrfjallahlaupið haldið í fyrsta sinn, þá í brennandi sól, og fóru þá um 660 bílar á dag yfir skarðið. Að sögn Vegagerðarmanna þolir vegurinn alls ekki slíka umferð. Dyrfjallahlaupið mun verða haldið aftur 2018 og má þá gera ráð fyrir að enn fleiri sæki fjörðinn heim.
Hvað er þá til ráða? Líklega mun ekki fást fjármagn til að endurbyggja og malbika strax alla þessa 28 km en það mætti gera þetta í áföngum. Halda þarf áfram þar sem frá var horfið fyrir nokkrum árum og malbika Njarðvík og skriðurnar. Kannski er þetta erfiðasta verkefnið því rétta þarf úr og byggja upp veginn og byggja skriðuvörn. Laga þarf einnig útsýnisstaði og setja upp vegrið.
Í leiðinni ætti að malbika að minnsta kosti efsta hluta skarðsins því vegurinn er þar ónýtur og myndast holur við minnstu rigningu. Næst þarf að ráðast í að leggja bundið slitlag frá Eiðum þannig að vegurinn út að Héraðsflóa komist í nútímalegt horf. Loks þarf að ljúka vegagerð yfir Vatnsskarð. Einn möguleiki væri að grafa stutt göng undir skarðið. Það mundi spara mikla snjómokstra og gamli vegurinn gæti þá verið opinn yfir sumarið sem útsýnisvegur og sem aðkomuvegur að gönguleiðum um Stórurð.
Í framtíðinni ætti að íhuga að byggja brú yfir Lagarfljót að norðanverðu og leggja vegartengingu frá Borgarfjarðarvegi að Húsey og Húseyjarvegi. Þannig myndast hringvegur um Hróarstungu sem gæti verið áhugavert uppbyggingarsvæði fyrir ferðamennsku. Margir leggja nú þegar leið sína til Húseyjar þrátt fyrir að aka þurfi langan og erfiðan malarveg þangað og svo sömu leið til baka. Í framhaldinu mætti hugsa sér brú yfir Jökulsá og göng til Vopnafjarðar. Slíkar samgöngubætur mundu opna mikla möguleika fyrir atvinnu, viðskipti, menningu og ferðamennsku.
En áður en við gleymum okkur í framtíðardraumum þurfum við að gera allt sem við getum til þess að bjarga brothættri byggð á Borgarfirði eystri og eitt af því sem gera þarf er að nútímavæða veginn þangað.
Höfundur býr í Reykjavík og hluta af árinu á Borgarfirði eystri.
Umferð um Vatnsskarð eystra á leiðinni til Borgarfjarðar 2001-2017. Brúna línan er sumardagsumferð. Ársdags- og vetrardagsumferð fyrir 2017 eru áætluð. Myndin fengin frá Vegagerðinni.