Viljalaust verkfæri ríkisstjórnarinnar?
Undanfarna áratugi hafa þær raddir heyrst að Alþingi sé afgreiðslustofnun, stimpilpúði og viljalaust verkfæri ríkisstjórnarinnar, sem svipt hafi verið sjálfstæði við lagasetningu. Flest lagafrumvörp séu samin af embættismönnum í ráðuneytunum, lögð fram af ráðherrunum og að lokum samþykkt af Alþingi.Ef tölur fyrir 146. löggjafarþing (2016-2017) eru skoðaðar kemur í ljós að 67% framlagðra stjórnarfrumvarpa náðu fram að ganga en einungis 7% framlagðra þingmannafrumvarpa (frá þingmönnum minni- og meirihluta). Þessar tölur eru mjög sambærilegar tölum fyrir önnur löggjafarþing.
Endurtekið efni
Ef ofangreindar tölur eru greindar nánar kemur í ljós að tæplega helmingur stjórnarfrumvarpa fær sína þinglegu meðferð án breytinga eða með mjög litlum breytingum. Hafa ber þó í huga að þriðjungur þeirra tengist alþjóðlegum skuldbindingum og þar er vissulega lítið svigrúm til efnislegra breytinga.
Það breytir því þó ekki að framkvæmdarvaldið hefur tögl og hagldir við setningu laga. Auðvitað er það rökrétt og eðlilegt þegar um innleiðingu á erlendri löggjöf eða frumvörp sem eru tæknilega flókin og/eða mannaflsfrek er að ræða, þar sem ráðuneytin búa yfir nauðsynlegri sérþekkingu og mannafla. Hins vegar hlýtur það að vera í hæsta máta óeðlilegt að næstum öll þingmannafrumvörp, hvort sem þau koma frá þingmönnum minni- eða meirihlutans, dagi næstum því alltaf uppi, á hverju þinginu á fætur öðru.
Píratamál til bóta
Hér er um að ræða kerfisgalla - og brenglað viðhorf - sem leiðir til þess að frumvörpin eru „svæfð“ í nefnd, oftast strax eftir 1. umræðu, til þess eins að verða notuð sem skiptimynt þegar samningar um þinglok fara fram um jól og að vori. Eflaust mætti breyta þessum hlutföllum ef farið væri eftir tillögu Stjórnlagaráðs um að þingmál falli ekki niður fyrr en við lok kjörtímabil, líkt og Píratar hafa einnig lagt til í þrígang.
Það verður einnig að teljast líklegt að hlutur Alþingis verði meiri við lagasetningu ef ráðherrar, sem hafa hlotið kosningu sem Alþingismenn, segja þingsæti sínu lausu, kalla til varamenn sína og afsala sér þannig atkvæðisrétti sínum á Alþingi. Með því yrðu tengsl ríkisstjórnar (framkvæmdarvalds) og Alþingis (löggjafarvalds) rofin og Alþingi næði vopnum sínum.
Höfundur er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi við kosningar til Alþingis 25. september nk.