Viljum við Austfirðinga á þing?

Nú þegar líður að kjördegi þá virðist allt benda til þess að Austfirðingar geti orðið fáir á þingi. Það er slæmt fyrir okkur, því það hefur sýnt sig að það getur skipt miklu máli fyrir sveitarfélög og íbúa á Austurlandi að á Alþingi sitji einstaklingar sem þekkja til málefna svæðisins.


Ef taka má mark á skoðanakönnunum er valið einfalt. Austfirskir þingmenn Framsóknarflokksins berjast fyrir áframhaldandi sætum. Í öðru og þriðja sæti listans sitja harðduglegar og vandaðar konur, Þórunn Egilsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, sem unnið hafa fyrir kaupinu sínu og vel það undanfarið kjörtímabil. Sú þingreynsla sem þær hafa aflað getur reynst Austurlandi ómetanlegur styrkur ef þær fá að þjóna okkur áfram.

Að skammast sín ekki fyrir landsbyggðirnar
Svona til þess að einfalda valið enn frekar má líka benda á það að Framsóknarflokkurinn hefur kinnroðalaust verið reiðubúinn að berjast fyrir uppbyggingu í landsbyggðunum. Frá þessu hefur ekki verið hvikað þó að ýmsir hafi verið reiðubúnir að þyrla upp moldviðri í kringum ákvarðanir sem ekki þóknast Reykjavíkurvaldinu.

Flutningur höfuðstöðva Fiskistofu og sá ótrúlegi málflutningur sem sást í kringum það mál er dæmi um slíkt. En það var Sigurður Ingi Jóhannsson, nú forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins sem tók þá ákvörðun og stóð við hana, þrátt fyrir gagnrýni sem í mörgum tilfellum var í hæsta máta ómálefnaleg.

Aðgerðir en ekki bara fögur orð
Á kjörtímabilinu hefur í fyrsta sinn verið gert raunverulegt átak í að opna nýjar fluggáttir inn í landið, með því að setja fjármuni í sjóði sem sérstaklega eru ætlaðir til þess að koma á millilandaflugi um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum og styrkja flugfélög við markaðssetningu á þessum nýju áfangastöðum.

Þetta eru raunverulegar aðgerðir, en ekki bara fögur orð. Þetta hefði aldrei orðið nema fyrir einarða baráttu Framsóknarmanna. Þetta mál var unnið á vettvangi forsætisráðuneytisins og það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi sem sá til þess að gripið var til þessara aðgerða, sem beðið hefur verið eftir árum og áratugum saman.

Austurland á gott skilið
Austurland á skilið sanngjörn tækifæri og eðlileg fjárframlög frá ríkinu í uppbyggingu á svæðinu. Eitt stjórnmálaaflanna sem nú býður fram spyr ykkur: Hverjum treystir þú? Ef spurningin er hverjum er treystandi til að verja hagsmuni Austurlands held ég að svarið sé einfalt.

Þórunni er treystandi. Líneik er treystandi. Setjum X við B.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.