Villikettir

Á níunda áratugnum bjó ég á Fáskrúðsfirði. Þar voru uppgangstímar, mikil útgerð og verkun. Úrgangur frá verkuninni var ærinn og nóg æti fyrir villiketti. Þeir voru fjölmargir og þeim fjölgaði ört yfir vertíðartíma. Þess á milli var stundum hungursneið í kattanýlendunni og þeir átu þá kettlingana.

Gamla fólkið fylgdist flest grannt með villibyggðinni og gaf köttunum fisk og mjólk yfir harðindatímann. Oft sáust tugir katta utan við hýbýli aldraðra bíða eftir soðningu. Svo rammt kvað að þessu að sumir eyddu ellilífeyrinum í matarkaup fyrir villiketti.

Þetta var vandamál enda ellilífeyrir lítill og minnkandi meðan yngri fólkið safnaði sjálfu sér í lífeyrissjóði framtíðarinnar. Gamla fólkið átti engan lífeyri, sparnaður fyrri tíma var ekki geymdur á bók heldur sást hann í fjölda afkomenda og í samfélaginum sem við, afkomendurnir, nutum svo ríkulega.

Sjómenn voru duglegir við að færa gamla fólkinu fiskmeti fyrir kettina en það dugði stundum ekki til. Samfélagið varð því að fylgjast með að gamla fólkið nærði sjálft sig á kattakrepputímum. Þetta var dugleg og gefandi kynslóð. Lífeyrir þess var íslensku samfélagi til skammar.

Mér er hugsað til kettlingaátsins í kreppusamfélagi kattanna núna þegar þjóðin upplifir andlega kreppu. Okkur fer fækkandi við efnislegar allsnægtir. Kynin geta vart átt samskipti og fimmta hverju barni, sem þó verður til, er eytt í móðurkviði. Aðferðirnar eru ólíkar sem og orsök kreppunnar en gjörningurinn sá sami.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar