Viðunandi samgöngur: Forréttindi eða mannréttindi?
Í eina tíð, og raunar ekki fyrir svo löngu síðan, þótti bara eðlilegt að sum byggðarlög einangruðust frá umheiminum landleiðina í upphafi vetrar og samgöngur væru engar yfir veturinn nema þá sjóleiðis, loftleiðis eða með snjóbílum, allt eftir því sem kom sér best á hverjum stað fyrir sig.
Í áranna rás hefur þróun verið mikil á ýmsum sviðum í mannlegu samfélagi, stundum til hins verra, en þó að mínu mati mun oftar til hins betra, sem betur fer. En þökk sé áður nefndri þróun þá hefur ýmislegt breyst til hins betra en þó er langt í land þegar kemur að samgöngum hér á landi.
Vissulega má alltaf rökræða um forgangsröðun í samgöngumálum og eðli málsins samkvæmt vill hver og einn skara eld að sinni köku. Ég get þó aðeins talað útfrá því byggðarlagi þar sem ég óx úr grasi og hef búið fram til þessa að undanskyldum örfáum árum á meðan ég stundaði nám.
Á Seyðisfirði sem eitt sinn var einn öflugasti iðnaðarbær landsins og skartaði fjölbreyttu atvinnulífi hefur því miður, líkt og í mörgum dreifðari byggðum landsins, atvinnutækifærum fækkað og því samhliða hefur íbúum bæjarins fækkað.
En þarf fólksfækkun að eiga sér stað samfara minnkandi atvinnuframboði? Ég segi nei, því með viðunandi samgöngum ættu flestir að geta búið þar sem þeir helst kjósa og fundið atvinnu við sitt hæfi í einhverjum nærliggjandi byggðum.
Viðunandi samgöngur eru ekki þar sem þú vaknar að morgni og þarft að byrja á að athuga hvort færð og veður er þannig að þú komist til vinnu.
Viðunandi samgöngur eru heldur ekki þar sem þú þarft að vinnudegi loknum að athuga hvort færð og veður sé þannig að þú komist heim aftur.
Sú er þó raunin í mínu tilfelli og fjölda annarra Seyðfirðinga sem sækja vinnu sína í nálægum sveitarfélögum, því á Seyðisfirði búa á milli 20 og 30 einstaklingar sem sækja vinnu í öðrum sveitarfélögum á Austurlandi og er eitt nýjasta dæmið að í byrjun mars voru um 20 Seyðfirðingar veðurtepptir á Egilsstöðum þrjá daga í röð og svipaður fjöldi þurfti að komast í hina áttina.
Hér er þó enn ótalið ungt námsfólk sem ekur til og frá skóla á Egilsstöðum daglega. Litlu mátti muna að mjög illa færi þegar það óhapp varð á Fjarðarheiði á dögunum, í blindbyl, að snjóruðningstæki skall aftan á fólksbíl sem var fullur af menntaskólanemum og má mildi teljast að enginn skyldi slasast í þessu óhappi, í það minnsta ekki alvarlega.
Til Seyðisfjarðar siglir líka vikulega, allan ársins hring, bíla- og farþegaferjan Norræna og ferðast með henni árlega þúsundir ferðamanna auk þess sem mörg hundruð tonn af frakt eru flutt með henni til og frá landinu í viku hverri og hafa samgöngur um Fjarðarheiði gert þeim sem sjá um fraktflutninga til og frá Norrænu erfitt fyrir, sem og öðrum flutningsaðilum sem um heiðina fara.
En þó það sem hér að framan hefur verið talið skipti gríðarlegu máli fyrir Seyðfirðinga þá er annað og meira sem hvílir þó þyngra á þeim, tilhugsunin um að maður sjálfur eða einhver manni nákominn verði bráðveikur og þurfi nauðsynlega á sérfræðiaðstoð að halda og Fjarðarheiðin sé ófær er okkur óbærileg.
Því miður tel ég að staðan sé einfaldlega þannig, búandi við þessar aðstæður, sé þetta ekki spurning um hvort, heldur hvenær einhver lætur hér lífið vegna þess að ekki tekst að koma viðkomandi undir læknishendur í tæka tíð vegna ófærðar á Fjarðarheiði.
Því segi ég það að viðunandi samgöngur eru ekki forréttindi heldur mannréttindi og eina lausnin í tilfelli okkar Seyðfirðinga eru jarðgöng undir Fjarðarheiði og það strax.
Höfundur er seyðfirskur björgunarsveitarmaður og sækir atvinnu á Egilsstöðum