Vonskuveður og ekki ferðafært
Skólahald fellur víða niður á Austurlandi vegna veðurs. Upplýsingar eru um að ekki verði skóli á Vopnafirði, Seyðisfirði, Eskifirði, Fellaskóla né á Eiðum. Nú er stórhríð á Norðausturlandi og mjög hvasst á Austurlandi; 25 til 30 m/sek í fjörðum allt frá Höfn og norður úr. Ófært er víðast í fjórðungnum og ekkert ferðaveður. Lögreglan á Vopnafirði segir ófært innanbæjar og biður fólk að vera ekki á ferðinni. Væntanlega má segja hið sama um önnur þéttbýli. Spáð er norðan- og norðvestanátt, víða 15-25 m/s fram eftir degi, snjókomu og hvössu við norðaustur- og austurströndina. Minnkandi norðanátt seint í dag og dregur úr ofankomu. Norðaustan 8-15 og él norðantil seint í kvöld, en él um mest allt land á morgun. Frost 0 til 12 stig.