Hálendisvegur: Mikilvægara að byggja fyrst upp innan fjórðungs?

halendisvegur kortAustfirskir sveitarstjórnarmenn virðast almennt áhugasamir um uppbyggingu hálendisvegar á milli Austurlands og Suðurlands fyrir norðan vatnajökull. Sumir telja þó mikilvægara að byrja fyrst á að byggja upp samgöngur innan fjórðungs.

Hugmyndin snýst um veg norðan Vatnajökuls með tenginu inn á Kárahnjúkaveg og Svartárkot í Bárðardal. Leiðin til suðurs lægi niður í Nýjadal.

Gert er ráð fyrir að vegamótin yrðu við Þríhyrninga. Þaðan eru 68 km í Kárahnjúka, 38 niður í Bárðardal og 48 niður í Nýjadal. Gert er ráð fyrir að vegagerðin myndi kosta 3,5 milljarða króna. Vegurinn myndi stytta leiðina til Reykjavíkur um rúma 200 kílómetra.

Hugmyndin er ekki ný af nálinni hefur öðlast aukið fylgi á síðustu misserum. Í vor óskaði undirbúningshópur undir forustu Sigurðar Gunnarssonar eftir stuðningi austfirskra sveitarfélaganna til að vinna að vinna að framgangi hugmyndarinnar.

Þannig var samþykkt á Fljótsdalshéraði að taka til skoðunar að breyta aðalskipulagi í samræmi við hugmyndir um lagningu vegarins. Þá yrði leitað viðbragða annarra sveitarfélaga sem leiðin liggur að.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar lýsti því yfir að ekki yrðu gerðar athugasemdir við að kanna vegalagninguna og hafa samráð um skipulagsmálin ef möguleikinn reynist raunhæfur.

Á Seyðisfirði var jákvæðum viðbrögðum Fljótsdalshéraðs fagnað. Bæjarráðið álítur að vegurinn yrði „gríðarleg samgöngubót og mikill atvinnuuppbyggingu á öllu Norðausturlandi".

Bókunni fylgdi hvatning til þingmanna Norðausturkjördæmis að vinna málinu brautargengi auk þess sem bæjarstjóra var falið að fylgja því eftir á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Bæjarráðið notaði þó tækifærið til að minna á núverandi samgöngur til Seyðisfjarðar sem það segir „óviðunandi" og há samgöngumálum á Austurlandi og þar með fullri nýtingu hálendisvegarins.

Sveitarstjórnir Borgarfjarðarhrepps og Djúpavogshrepps minntu á mikilvægara væri að byggja upp núverandi vegi við byggðarlögin frekar en ráðast í hálendisveginn.

Í bókun sveitarstjórnar Djúpavogshrepps segir að það sé mat hennar að á meðan ekki hafi verið lokið lagningu slitlags á fjölförnum vegum í fjórðungum og að viðhaldi vega og nýframkvæmdum á stofn- og tengivegum sé „enn mjög ábótavant" séu „engar forsendur til að kalla eftir umræddum hálendisvegi á þessu stigi" þótt hann verði unninn í einkaframkvæmd.

„Ljóst má vera að ef sveitarfélög á Austurlandi færu nú að leggja kapp á stuðning við nýjan hálendisveg þá væri sá gjörningur til þess eins fallin að draga athyglina frá öðrum og brýnni verkefnum sem liggja óleyst á borði samgönguyfirvalda á svæðinu."

Sveitarstjórnin telur hins vegar eðlilegt að skoða hálendisveginn þegar brýnni verkefnum á svæðinu verði lokið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar