Óstöðugt og of hægt aðflug orsök flugslyss á Egilsstaðaflugvelli
Óstöðugt aðflug og of lítill flughraði eru taldar helstu orsakir þess að fisflugvél hlekktist á í lendingu á Egilsstaðaflugvelli í september í fyrra og endaði utan brautar. Talsverðar skemmdir urðu á vélinni.Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa um slysið sem er nýkomin út.
Atvikið átti sér stað eftir hádegi þann 12. september í fyrra. Flugmaður vélarinnar var að æfa snertilendingar á flugvellinum og í annarri lendingu rakst stélið niður þannig það laskaðist og flugmaðurinn missti stjórn á vélinni.
Í skýrslu nefndarinnar er haft eftir tveimur flugvallarstarfsmönnum að „bras" hafi verrið á flugmanninum í aðfluginu, það óstöðugt og lendingin „ekki góð." Þar skall vélin niður og síðan reis nef hennar snögglega þannig að stélið skall harkalega í flugbrautinni.
Flugmaðurinn varð ekki var við að stélið skall niður. Hann hafði samt lítið vald á vélinni sem snérist yfir á vinstri væng þannig að vængendinn rakst í brautina. Fisvélin snérist til vinstri og fór út af brautinni. Hún stöðvaðist loks tæpa 40 metra utan brautar eftir að loftskrúfan rakst í jörðina þannig vélin kastaðist upp, snérist rúman hálfhring, lenti á stélinu og hafnaði á öllum hjólunum.
Talsverðar skemmdir urðu á vélinni svo sem á vængenda vinstra megin, stéli, nethjóli, vélharhlíf og framrúðu.
Sem fyrr segir telur nefndin að óstöðugt og of hægt aðflug hafi orsakað slysið. Hún hafi síðan ofrisið og stélið skollið í jörðinni. Við það hafi stélið laskast mikið þannig að hliðar- og hæðarstýri virkuðu ekki sem skildi. Í kjölfarið fór vélin stjórnlaust út af flugbrautinni.