Verðmætasköpun eykst ekki nema í gegnum auðlindina sem er á milli eyrnanna á okkur

keilir austurbru 0003 webForsvarsmenn Austurbrúar og Keilis skrifuðu í gær undir samning um samstarf í fræðslumálum sem eykur fjölbreytni námsframboðs á Austurlandi. Framkvæmdastjóri Austurbrúar segir aukna menntun skapa aukin tækifæri fyrir Austfirðinga.

„Þessi samningur er ákaflega mikils virði fyrir Austurland," segir Karl Sölvi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Austurbrúar og fyrrum starfsmaður Keilis.

„Með honum skapast fjöldi tækifæra fyrir nemendur til að ljúka framhaldsskólanámi sínu í gegnum Austurbrú og starfsstöðvar okkar sex. Eins fá iðnaðarmenn tækifæri til að halda námi sínu áfram upp á háskólastig."

Samkvæmt samningnum mun samstarf Austurbrúar og Keilis einkum ná til eftirfarandi þátta; menntunar á Háskólabrú, menntunar í tæknifræði, flugtengdu námi, ÍAK einkaþjálfara og Ævintýraleiðsögn. Þá er almennt námskeiðshald á netinu og rannsókna- og þróunarstarf einnig hluti af samstarfinu.

Á Háskólabrú er boðið upp á nám fyrir einstaklinga sem hafa ekki lokið stúdentsprófi en að námi loknu uppfylla nemendur inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis.

„Ég held að þetta sé áríðandi og gott fyrir Austfirðinga því við glímum eins og Suðurnesin við frekar lágt menntunarstig. Með aukinni menntun skapast aukin tækifæri fyrir fólk."

Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis sem hefur aðsetur sitt á gamla varnarliðssvæðinu við Keflavík, sagðist sjá sameiginleg sóknarfæri fyrir Austurland og Suðurnes við samningnum.

„Það er sameiginlegt markmið okkar að efla mannlíf og atvinnulífið í gegnum aukna menntun, rannsóknir og þróun. Á báðum stöðum eru öflug sjávarútvegsfyrirtæki, það er að koma álver til okkar og er komið til ykkar. Það er margt líkt í umhverfinu, til dæmis þarf menntunarstig að hækka á báðum stöðum.

Verðmætasköpun mun ekki aukast nema í gegnum þessa auðlind sem er á milli eyrnanna á okkur og við verðum að tengja náttúruauðlindirnar við mannvitið," sagði Hjálmar.

Undir þetta tók Karl Sölvi og sagði að auka þyrfti úrvinnslu hráefna á Austurlandi. „Við erum að vinna í ákveðnum verkefnum sem snúa að áframvinnslu á áli og fiskafurðum. Við verðum að þröngva okkur ofar í virðispíramídanum fyrir þessi hráefni sem við erum að selja úr landi. Það skiptir máli fyrir Austurland."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar