Meet the Locals fékk hæsta styrkinn úr VAXA: Fólkið það frábærasta á Austurlandi

diana mjoll sveinsdottirFerðaþjónustuverkefnið Meet the Locals, sem haldið er úti af ferðaskrifstofunni Tanna Travel, fékk hæsta styrkinn í haustúthlutun Vaxtarsamnings Austurlands (VAXA). Rúmum fimmtán milljónum var úthlutað að þessu sinni.

„Komdu sem ferðalangur, farðu sem vinur," (e. Come as a stranger, leave as a friend) er slagorð Meet the Locals sem í dag fékk hæsta styrkinn, þrjár milljónir króna, þegar 38,5 milljónum króna var úthlutað úr Vaxtarsamningi Austurlands.

„Fólkið er það frábærasta á Austurlandi;" sagði Díana Mjöll Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Tanna Travel sem heldur utan um verkefnið, í kynningu á því fyrr á þessu ári.

Verkefnið er klasasamstarf sem um tuttugu austfirskir ferðaþjónustuaðilar taka þátt í. Seldar eru ferðir með það að markmiði að ferðamaðurinn sé ekki áhorfandi heldur fái að hitta ferðamenn og jafnvel fara inn á heimili. Í ferðunum kynnist hann Íslandi, Íslendingum og íslenskri menningu og siðum.

„Lokatakmarkið er að ferðamaðurinn sendi fjölskyldunni póstkort," sagði Díana. Með verkefninu er meðal annars stefnt að því að lengja ferðamannatímann, auka afþreyingu á svæðinu og skapa sérstöðu.

Verkefnið hefur verið í gangi í nokkur ár en með klasasamstarfinu er tryggt samræmt markaðsstarf þar sem vefurinn meetthelocals.is er miðpunkturinn.

Úthlutun samningsins í heild:
Meet the Locals 3.000.000 kr.
Efling alþjóðaflugvallarins á Egilsstöðum 2.500.000 kr.
Austurland: Designs from Nowhere 2.350.000 kr.
Matur og menning á Borgarfirði eystra 2.000.000 kr.
Miðstöð Cittaslow á Íslandi, Djúpavogi 1.750.000 kr.
Arfleifð – aukin framleiðsla og sala á Djúpavogi 1.000.000 kr.
Útvegsefling Breiðdalsvíkur 1.000.000 kr.
Norðurljósasetur á Fáskrúðsfirði 600.000 kr.
Þokusetur Stöðvarfirði 600.000 kr.
Ull – aukin verðmætasköpun og þróunarvinna 500.000 kr.
Sædýragarður Breiðdalsvík 150.000 kr.
Samtals: 15.450.000 kr.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar