Anna Birna næsti skólameistari Hússtjórnarskólans
Anna Birna Einarsdóttir tekur við starfi Handverks- og hússtjórnarskólans á Hallormsstað um áramótin. Segja má að Anna Birna sé að snúa aftur á heimaslóðirnar en hún hefur síðustu ár búið á Húsavík.Anna Birna bjó á Hallormsstað í nokkur ár sem unglingur en faðir hennar, Einar Georg Einarsson, var þar skólastjóri grunnskólans. Hún hefur síðustu ár starfað sem deildarstjóri og staðgengill Borgarhólsskóla á Húsavík auk þess að kenna textílmennt.
Hún lauk prófi sem textílkennari á framhaldsskólastigi frá Viborg í Danmörku árið 2009 og meistaraprófi í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri sama ár.
Fráfarandi skólameistari, Þráinn Lárusson, sagði starfi sínu lausu í haust en hann hefur stýrt skólanum undanfarin 13 ár. Staðan var auglýst í október og bárust alls átta umsóknir.