Skólahúsnæðið á Djúpavogi sprungið: Útlit fyrir 100% fjölgun nemenda á aðeins sjö árum

djupivogur 280113 0018 webEndurskoða þarf húsnæðismál skólastofnana á Djúpavogi í ljósi mikillar fjölgar barna á staðnum. Útlit er fyrir að nemendafjöldi grunnskólans aukist um 30% á næstu þremur árum. Leigt var auka húsnæði undir leikskólann til að hægt væri að rúma alla nemendur þar í vetur.

Nemendur í grunnskóla staðarins eru 63 í vetur en voru 40 haustið 2009. Um og yfir 10 krakkar eru í þeim árgöngum sem væntanlegir eru inn í skólann næstu þrjú ár. Þeir bekkir eru tvisvar eða þrisvar sinnum stærri en þeir árgangar sem útskrifast.

Því er útlit fyrir að haustið 2016 verði 80 nemendur í skólanum haustið 2016 sem þýðir 100% fjölgun á sjö árum.

Í bréfi sem skólastjóri Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, skólastjóri grunn-, leik- og tónskólanna á Djúpavogi sendi sveitastjórn fyrir skemmstu kemur fram að ekki hafi verið hægt að sinna lögbundinni kennslu allra kennslugreina í grunnskólanum síðustu ár vegna húsnæðisskorts.

Heimilisfræði og tónlist í leiguhúsnæði

Skólinn starfar í fjórum húsum í dag. Flestar námsgreinar eru kenndar í aðalhúsnæðinu en íþróttir í íþróttamiðstöðinni, smíði í búningsherbergjum gömlu sundlaugarinnar og heimilisfræði í leiguhúsnæði í því húsi þar sem heimavist skólans var áður.

Leigusalinn, sem starfar í ferðaþjónustu, hefur hins vegar þurft salinn um miðjan maí og því hafa nemendur misst úr 2-3 vikur í kennslunni sem reynt hefur verið að bæta upp með bóklegu námi.

Sömu sögu er að segja um tónskólann en bent er á að sífelldur frágangur og geymsla á hljóðfærum skólans fari illa með þau.

Halldóra lýsir í bréfinu þeirri skoðun sinni að best sé að byggja nýja kennsluálmu við grunnskólann þar sem kennsla í smíðum, heimilisfræði og tónlist rúmist. Að auki þurfi að huga að húsnæðismálum bókasafna staðarins.

Leigt undir leikskólann líka

Frá haustinu 2011 hefur grunnskólinn aðeins starfað í 170 daga í stað 180 eins og lög gera ráð fyrir. Kennsludagarnir hafa hins vegar verið lengdir þannig að nemendur fái lögbundinn fjölda kennslustunda.

Á leikskólanum Bjarkatúni eru í vetur 49 börn. Skólinn rúmar í mesta lagi 40 börn og því var húsnæði leigt í vetur til að rúma öll börnin. Útlit er fyrir fækkun á næstu árum en þær tölur byggjast á spám.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps samþykkti í fundi sínum í síðustu viku að skila starfshóp sem greini stöðu og þörf Djúpavogsskóla í húsnæðismálum. Niðurstöðu og tillögum sínum á hópurinn að skila eigi síðar en í mars 2014.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar