Björt framtíð boðar bjartari morgna en Seyðfirðingar vilja bjartari kvöld

huginn 100ara 0010 webForseti bæjarstjórnar á Seyðisfirði segir nýframkomna tillögu þingflokks Bjartrar framtíðar um að seinka klukkunni á Íslandi vera í þveröfuga átt við vilja Seyðfirðinga. Íbúar þar hafa um hríð barist fyrir því að klukkunni verði flýtt á sumrin þannig sólar njóti lengur við innan fjallahringsins seinni partinn.

„Þessi tillaga er í þveröfuga átt við það sem við höfum verið að óska eftir. Við viljum sumartíma sem gengur út á að flýta klukkunni eins og víða er gert í heiminum.

Við hefðum þá lengri birtutíma fram á kvöldið á sumrin. Við sem erum með háu fjöllin gætum þá notið sólar til klukkan 19:30 yfir hásumarið,“ segir Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Björt framtíð lagði í gær fram þingsályktunartillögu um að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund, allt árið. Í greinargerðinni er bent á að klukkan á Íslandi sé rangt skráð miðað við gang sólar.

Frá árinu 1968 hafi klukkan hér verið stillt á sumartíma allt árið. Það gefi landsmönnum bjartari kvöld á sumrin en styttri birtutíma á veturna þar sem menn vakni til að mæta í vinnu eða skóla þegar enn sé í raun nótt.

„Í stað þess að sól sé hæst á lofti um hádegisbil er sól á Íslandi hæst á lofti í Reykjavík að meðaltali kl. 13.28 og á Egilsstöðum hálftíma fyrr. Verði klukkunni varanlega seinkað um eina klukkustund, eins og tillaga þessi gerir ráð fyrir, yrði sól hæst á lofti í Reykjavík að jafnaði klukkan hálfeitt og á Egilsstöðum í kringum tólf eins og eðlilegt er,“ segir í greinargerð Bjartrar framtíðar.

Tillagan gengur því þvert á baráttu Seyðfirðinga. „Það þýddi að það myndi birta fyrr á morgnanna miðað við klukkuna og það myndi dimma fyrr á kvöldin. Sólin hjá okkur hér á Seyðisfirði væri horfin á bak við fjöllin 17:30 á besta tíma sumarsins ef þeirra tillaga næði fram að ganga,“ segir Arnbjörg og bætir við. „Við myndum seint geta samþykkt tillögu Bjartrar framtíðar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar