MAST flokkar Nor98 ekki sem riðu: Skoða á lög um dýrasjúkdóma

lombMatvælastofnun leggur ekki til niðurskurð á sauðfjárbúinu Krossi í Berufirði þar sem stofnunin flokkar riðuafbrigðið Nor98 ekki sem riðu. Héraðsdýralæknir telur þörf á að endurskoða reglur um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

„Við leggjum ekki til niðurskurð vegna þess að við skilgreinum ekki Nor98 sem riðu," segir Eyrún Arnardóttir, héraðsdýralæknir á Austurlandi.

Nýverið greindist riðuafbrigðið Nor98 á Krossi. Riðuveiki er skilgreind í flokki A-sjúkdóma en í þann flokk falla hættulegustu búfjársjúkdómarnir. Venjan er að þegar slíkur sjúkdómur greinist á búi sé allur bústofninn skorinn niður. Í B-flokki eru síðan vægari sjúkdómar.

Slík var þó ekki raunin síðast þegar Nor98 greindist hérlendis í Merki á Jökuldal. Þá voru aðeins eldri kindurnar skornar og á Krossi leggur MAST, sem gerir tillögur um viðbrögð þegar upp koma slíkir sjúkdómar, ekki til neinn niðurskurð.

Eyrún segir ástæðu til að endurskoða flokkun Nor98. „Það þarf að vinna í því að skilgreina Nor98 sem sjúkdóm og þá sennilega sem B-sjúkdóm," segir hún og bætir við að hún hafi þær upplýsingar frá landbúnaðarráðherra að lög um dýrasjúkdóma og varnir til þeim verði teknar til endurskoðunar í vor. „Ég vona að það standist."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar