Formaður Bændasamtakanna: Þurfum með einhverjum hætti að komast út úr þessum kvótakaupum

sigurgeir sindri asmundur einar baendafundur webSindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands telur nauðsynlegt að endurskoða kvótakerfi í mjólkur- og lambakjötsframleiðslu. Það sé eitt af því sem hamli nýliðun í landbúnaði. Útlit sé fyrir að milljarðar fari út úr nautgriparækt á næstu árum eingöngu í kvótakaup.

„Mjólkurkerfið var hugsað til að takast á við offramleiðslu en ekki skort eins og er í dag. Sérfræðingar hafa sagt okkur að á næstu árum fari fimmtán milljarðar út úr greininni í kvótakaup.

Við höfum ekki efni á því. Við verðum með einhverjum hætti að komast út úr þessum kvótakaupum," sagði Sindri á bændafundi á Egilsstöðum á mánudagskvöld.

„Það er erfitt að brjóta upp mjólkurkerfið því menn hafa skuldsett sig og byggt upp en ég held að við þurfum að byrja vinnuna því hún er flókin."

Peningarnir fara út úr greininni

Hann benti einnig á stöðuna í sauðfjárrækt þar sem menn séu að borga allt að 40.000 fyrir ærgildið sem gefur af sér 3.600 krónur á ári. Sindri sagði „undiröldu" meðal bænda út af kvótamálum.

„Peningarnir fara í banka og þá út úr greininni," sagði Sindri og vísaði til þess að stór hluti framleiðslukvóta sé í eigu fjármálastofnana eða menn þurfi að slá lán til að kaupa kvóta.

Sindri sagði þetta eitt af þeim málum sem bændur yrðu að taka upp í viðræðum sínum við ríkið. „Það varð engin þróun á meðan Evrópusambandsumsóknin var í gangi," sagði Sindri og bætti við að mikil orka og tími hefðu farið hjá samtökunum í það síðustu ár að berjast gegn aðildarumsókninni.

Lambakjöt gæðavara á litlum, dýrum mörkuðum?

Sindri var á fundinum spurður að því hvort hann hefði trú á takast mætti að koma á nýliðun í íslenskum landbúnaði. Hann sagðist bjartsýnn á það.

„Ég hef trú á að við getum byggt upp landbúnað þar sem við getum fengið ungt fólk til að fara í búskap. Það er misjafnt eftir landssvæðum hvort menn hafi áhyggjur af nýliðun. Hún gengur í bylgjun. Það kemur ein kynslóð og býr þá í nokkra áratugi og svo tekur sú næsta við," sagði Sindri.

Sindri, sem er fyrrverandi formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, ræddi einnig kjör bænda. Hann benti á að hann hefði sem formaður LS talað fyrir því að staðsetja þyrfti íslenskt lambakjöt annars staðar á verðlagsmörkuðum en það er í dag til að tryggja afkomu bænda.

„Ég talaði um að selja það sem gæðavöru á litla, dýra markaði. Það þýðir að við myndum tapa heimamarkaðinum endanlega en það er einfaldlega ekki hægt að bjóða neytendum að borga það sem kostar að framleiða lambakjöt, þrátt fyrir stuðning."

Sindri ræddi átak í ímyndamálum bænda og til að fækka slysum í landbúnaði sem séu of algeng. Þá er að fara í gang vinna til að meta tap bænda af ágangi álfta og gæsa sem Sindri sagði „stórt hagsmunamál."

Þverir gegn sameiningu Landbúnaðarháskólans við HÍ

Undanfarið hafa einnig verið ræddar hugmyndir um sameiningu Landbúnaðarháskóla Íslands við Háskóla Íslands. Sindri sagði að Bændasamtökin stæðu „mjög þver" gegn því.

Sparnaðinum sé þar ekki fyrir að fara því það kosti 60 milljónir króna aukalega, miðað við kostnaðargreiningu frá árinu 2009. Menntamálaráðherra tali hins vegar um faglegan ávinning og margir starfsmenn vilji komast í það starfsumhverfi sem Háskóli Íslands tryggir.

Þá sagðist Sindri „ekki viss um hvað ráðherrann vill gera við Hóla nema hann vill taka af honum háskólatignina." Hann bætti við að sameining hefði yfirleitt þýtt að hratt hefði fjarað undan stofnunum.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins sem var með í för og fjallaði um stefnu ríkisins í landbúnaðarmálum, sagðist „enginn sérstakur áhugamaður um sameiningu."

Hann lýsti samt áhyggjum sínum af sínum gamla skóla á Hvanneyri og spurði hvort hann veitti nemendum nógu góða menntun til að vera sjálfstæðir atvinnurekendur. „Hann þarf að taka töluverðum breytingum ef hann á að vera sjálfstæður," sagði Ásmundur en tiltók að hann gæti ekki nákvæmlega sagt til um í hverju þær breytingar fælust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar