Vantar einn lækni á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað: Meira púsl að halda hlutunum gangandi
Einn lækni vantar upp á að fjórir fastráðnir læknar starfi við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað (FSN) eftir að forstöðulæknir sjúkrahússins hætti um mitt ár. Staðan hefur verið leyst með ólíkum sérfræðilæknum.„Það er meira álag á þann lyflækni sem eftir er og meira púsl að halda hlutunum gangandi," segir Valdimar O. Hermannsson, rekstrarstjóri FSN.
Á sjúkrahúsinu hafa vanalega verið svæfingalæknir, skurðlæknir og tveir lyflæknar. Björn Magnússon, lyflæknir og forstöðulæknir, lét af störfum um mitt ár og ekki hefur verið ráðinn nýr maður í hans stað.
Staðan var auglýst en engar formlegar umsóknir bárust. „Við fengum tvær fyrirspurnir en það kom ekki til viðræðna. Við ákváðum þá að bíða með næstu auglýsingu fram á nýtt ár, þar til við sæjum fjárlögin og auglýsa þá með opnari hætti."
Á meðan skipta farandsérfræðingar með sér fjórðu stöðunni. „Það er að sumu leyti gott að fá fleiri tegundir sérfræðinga en á móti er álagið meira á þeim lyflækni sem eftir er."
Valdimar viðurkennir að erfitt hafi verið að manna lausar læknastöður innan HSA undanfarin ár. Ánægjulegt sé hins vegar að fleiri unglæknar horfi heim.
„Við höfum reynt að sinna þeim og hæna þá að okkur og það hefur skilað árangri. Við höfum fengið unglækna eða læknanema með tengsl við Austurland og þeir sýna áhuga á að koma hingað í námi, sérstaklega á FSN þar sem fjölbreytnin er mest en einnig í Egilsstaði þar sem er stór heilsugæslustöð."