Dæmdur fyrir að stofna lífi og heilsu vegfarenda í hættu með glannaakstri
Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stofnað lífi og heilsu vegfarenda í hættu á ófyrirleitinn hátt með glannaakstri. Viðkomandi ók ítrekað á rangan vegarhelming á miklum hraða á flótta undan lögreglu á Fagradal í fyrrahaust.Eltingaleikurinn hófst niðri á Reyðarfirði og endaði við Neðstubrú á Fagradal. Ökumaðurinn var ofurölvi og að auki undir áhrifum kannabisefna, ók mest á 136 hraða og sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu.
Hann játaði brot sitt en dró í efa að hann hefði stofnað lífi og heilsu vegfarenda í hættu eins og lýst er í hegningarlögum.
Eftirför lögreglu átti sér stað að næturlagi í september í fyrra í mikilli rigningu. Hún stóð í sjö mínútur og var tekin upp með búnaði í lögreglubíl.
Á meðan henni stóð komu þrír bílar úr gagnstæðri átt í beygjunum af Fagradal niður í Reyðarfjörð. Bílstjórar þeirra báru allir fyrir dómi að þeir hefðu hægt á sér og hægt út í kant þegar þeir sáu forgangsljós lögreglunnar.
Á upptökunum sást að bíll ákærða var að mestu á öfugum vegarhelmingi þar til rétt áður en hann mætti fyrsta bílnum á 110-117 km hraða. Hann ók einnig ítrekað yfir miðlínu til að koma í veg fyrir að lögreglan kæmist fram úr.
Með vísan til játningar og rannsóknargagna taldist dómurinn sannað að hann hefði stofnað lífi annarra vegfarenda í hættu. Hann var því dæmdur í þriggja mánaða fangelsi sem skilorðsbundið er í tvö ár, 160 þúsund króna sekt fyrir ölvunarakstur, greiðslu alls sakarkostnaðar upp á rúmar 310.000 krónur og sviptingar ökuréttar í tvö ár.