PISA: Hefur austfirskum nemendum hefur farið aftur um heilt skólaár?

move week sabina fellaskoliÞeir nemendur sem luku grunnskólanámi árið 2012 eru heilu skólaári á eftir þeim sem útskrifuðust tíu árum fyrr í lesskilningi og stærðfræðilæsi, ef marka má niðurstöður PISA-könnunar. Austfirðingum virðist fara mest aftur ef landshlutarnir eru bornir saman.

Austfirskir nemendur tapa 60 PISA stigum í stærðfræðilæsi frá árinu 2003 til 2012, fara úr 523 stigum í 463 en það er mesta tap eins landshluta. Séu landshlutarnir bornir saman koma Austfirðingar næst verst út á eftir Suðurnesjum.

Í niðurstöðuskýrslunni er bent á að læsi á stærðfræði hafi ekki verið ýkja frábrugðið árið 2003. Síðan hafi átt sér stað „mjög neikvæð þróun" meðal annars á Austurlandi.

Austfirðingar falla einnig mest í lesskilningi, úr 521 stigi í 458 frá árinu 2000 til 2012 eða um 63 stig og eru næst lægstir á landsvísu.

Miðað við þetta má segja að Austfirðingum hafi farið aftur um eitt til eitt og hálft skólaár á þessu sviði, það er að lesskilningur nemenda sem nú útskrifist úr 10. bekk sé svipað og úr níunda bekk árið 2000.

Náttúrufræðilæsi var einnig skoðað í könnuninni en það fellur á Austurlandi úr 488 stigum í 452 frá árinu 2006 til 2012. Fallið er 36 stig, sambærilegt og í flestum öðrum landshlutum þótt heildarskorið sé það næst lægsta í samanburði landshlutanna.

Náttúrufræðilæsi þeirra sem útskrifast úr tíunda bekk í dag er því svipað og þeirra sem kláruðu níundabekk árið 2006. Skýrsluhöfundar segja þetta „gríðarlega neikvæða þróun á skömmum tíma."

Spurningunum í könnuninni er skipt í sex þrep sem taka við hvert af öðru í erfiðleika. Aðeins 6% austfirskra nemenda komast í efstu tvö þrepin í stærðfræði sem er einna slakasti árangurinn. Um þriðjungur nemenda kemst ekki lengra en í annað þrep.

Dreifing í hæfnisþrep í lesskilningi er svipuð og annarra landshluta. Náttúrufræðilæsið er einnig slakt, þar kemst þriðjungur ekki upp af öðru þrepi. Hins vegar eiga Austfirðingar 1% í efsta þrepinu en fimm landshlutar af níu ekkert.

Skýrsluhöfundar segja niðurstöðurnar sýna „svipaðar niðurstöður fyrir hlutfall mjög slakra nemenda á öllum þremur sviðum læsis. Suðurnes standa áberandi verst að vígi og þar á eftir Austurland."

PISA-könnunin er gerð í 65 löndum. Hér á landi var það Námsgagnastofnun sem sá um hana. Á landsvísu sýndi könnunin afturför sem nam hálfu skólaári frá því að byrjað var að gera kannanirnar.

Verulegur munur er á höfuðborgarsvæði og landsbyggð í öllum greinum og hefur afturförin orðið mest á landsbyggðinni þó svo höfuðborgarsvæðið hafi einnig látið undan síga.

Munur á milli skóla er hvergi minni en hér á landi og skólabragur og viðhorf nemenda til náms hafa batnað verulega frá því sem áður var.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar