Meirihluti bæjarfulltrúa sat hjá við staðfestingu samninga um kaup á reiðhöllinni

reidholl idavollumFimm fulltrúar í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs af níu sátu hjá þegar samningur um kaup sveitarfélagsins á hlutafé hestamannafélagsins Freyfaxa í Reiðhöllinni Iðavöllum ehf. var staðfestur á miðvikudag. Bæjarfulltrúar lýstu yfir miklum efasemdum um framtíðar rekstur hallarinnar á bæjarstjórnarfundi á miðvikudag.

„Miðað við eins og höllin er núna er vonlaus rekstur á þessu," sagði Páll Sigvaldason, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og einn af fulltrúum meirihlutans þegar hann skýrði af hverju hann sat hjá við afgreiðslu tillagna um reiðhöllina.

Tvær tillögur tengdar reiðhöllinni, sem sveitarfélagið keypti nýverið á nauðungaruppboði, voru teknar fyrir á fundinum. Fimm samþykktu þá fyrri en fjórir sátu hjá en hún gekk út á að skipa fimm manna starfshóp um framtíðarfyrirkomulag rekstrar reiðhallarinnar.

Bæjarráð tilnefndir þrjá fulltrúa í nefndina: einn fulltrúi ferðaþjónustuaðila, einn fulltrúi hestmanna og einn bæjarfulltrúi. Menningar- og íþróttanefnd tilnefnir fjórða fulltrúann og atvinnumálanefnd þann fimmta. Hópurinn á að skila inn tillögum fyrir lok janúar.

Hin tillagana var staðfesting á samningi um kaup sveitarfélagsins á hlutafé Hestamannafélagsins Freyfaxa í Reiðhöllinni Iðavöllum ehf. fyrir tíu krónur.

Sigrún Blöndal úr Héraðslistanum, sem er í minnihluta, studdi fyrri tillöguna en sat hjá við staðfestingu kaupanna líkt og aðrir fulltrúar minnihlutans og Páll.

Páll sagðist ekki hafa verið samþykkur kaupunum en þau væru frágengin og því væri hjásetan „táknræn." Flokkssystir hans Gunnhildur Ingvarsdóttir tók í svipaðan streng en studdi þó tillögurnar. „Persónulega hefði ég viljað sjá peningana fara í eitthvað annað en þessa reiðhöll."

Gunnar Jónsson af Á-lista og formaður bæjarráðs hafnaði því að verið væri að taka peningum frá öðrum liðum. Lán hefði verið tekið fyrir höllinni með veðrétti í höllinni og því væri sveitasjóður ekki í ábyrgð.

Karl S. Lauritzson, Sjálfstæðisflokknum, benti á að kaupverðið væri ekki 22 milljónir heldur 38 milljónir samkvæmt lánasamningnum þegar lánið yrði að fullu greitt. „Ég á ekki von á öðru en þeir peningar komi meira og minna úr bæjarsjóði," sagði hann.

Gunnar sagði eignina keypta á vegum Fasteignafélags Fljótsdalshéraðs og því opið að fasteignin yrði seld áfram, nýir rekstraraðilar kæmu inn eða breytt um rekstrarform.

Hann vísaði einnig til þess að tekjur hefðu komið inn fengist fyrir notkun í höllinni síðustu ár. Bæði Páll og Karl bentu á að þær hefðu varla dugað fyrir rekstri og ekki afborgunum. Við bætist að höllin er ekki fullkláruð.

Áður hafði meirihluti menningar- og íþróttanefndar samþykkt bókun þar sem athygli var vakin á að kaupin á reiðhöllinni væru „þvert á áherslur nefndarinnar í uppbyggingarmálum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar