Húsbruni í Neskaupstað: Erfiðar aðstæður til slökkvistarfs í Brekku í gær

eldur brekka nesk des13 khNokkrar skemmdir urðu á íbúðarhúsnæði í tvílyftu einbýlishúsi í Neskaupstað í gærkvöldi eftir að eldur kom upp í húsinu. Hann kviknaði í ytri enda hússins, sem hefur verið óíbúðarhæfur um árabil en slökkvimönnum tókst að mestu að verja íbúðina í hinum hlutanum.

Reykur, sót og vatn komst inn í íbúðina en slökkvimönnum tókst annars að verja þann hluta að mestu. Íbúum hefur þegar verið komið fyrir í annarri íbúð til bráðabirgða.

Á Facebook-síðu slökkviliðs Fjarðarbyggðar segir að aðstæður til slökkvistarfs hafi verið erfiðar. Húsið standi í Brekku, enda heiti það Brekka, hörkufrost, hálka og byggingarlag þess flókið því oft hafi verið byggt við það í gegnum tíðina.

Slökkvistarfið hafi þó gengið ágætlega og með ólíkindum sé að tekist hafi að verja íbúðina en meðal annars þurfti að brjóta niður millivegg til að slökkva alla glóð í innvegg í íbúðinni.

Mynd: Kristín Hávarðsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar