Hálendisvegur: Eru menn tilbúnir að takast á við áhrif aukinnar umferðar?
Sérfræðingur í ferðamálum varar við hugmyndum um hálendisveg á milli Austurlands og Suðurlands. Ef menn ætli að opna enn frekar á aðgengi að náttúruperlum að svæðinu þarf að byggja upp í kringum staðina til að taka við ferðafólkinu. Það hafi menn ekki virst tilbúnir til að gera fram að þessu.„Það má vel spyrja hvaða vit sé í að opna aðgengi á enn viðkvæmari staði fyrir fjöldann á meðan við ráðum ekki viða ð byggja sómasamleg móttökuskilyrði á þeim stöðum sem nú þegar eru sóttir heim og liggja margir undir alvarlegum skemmdum."
Þetta eru viðbrögð Edwards H. Huijbens, forstöðumanns Rannsóknarmiðstöðar ferðamála við Háskólann á Akureyri við hugmyndum um uppbyggingu hálendisvegar á milli Austurlands og Suðurlands.
Hann segir „ekki fráleitt" að opna vegi inn á hálendið og gera náttúruperlu aðgengilegar. Þeir vegir verði hins vegar aldrei heilsársvegi og þá þurfi að hanna sem þjóðgarðavegi sem falli að landi og spilli ekki ásýnd.
Í umræðunni um nýjan hálendisveg hefur þó aðallega verið talað um styttingu leiðarinnar á milli landssvæða. Hins vegar það svo að „með vegi kemur fólk" og þá opnist möguleiki „fyrir alla á Yaris að heimsækja Öskjuvatn og Gæsavötn."
„Þá þarf að fylgja þessum hugmyndum sannfærandi áætlun hvernig staðið verður að móttöku þeirra gesta sem þá koma.
Auk þess þykir mér sérstakt ef 10.000 manna svæði ætlar að standa að rekstri vegar suður sem aðeins tengir þá og suðvesturhornið meðan aðrir landshlutar þurfa þá að nýta aðra vegi.
Þetta mundi gera lélega nýtingu innviða hér á landi enn verri og þungann fjárfestingarkostnað og rekstrarkostnað vegna þessara innviða enn þungbærari á ríkið.
Þannig að nema um ferðamannaveg sé að ræða sem fellur að landi er þetta ekki líkleg framkvæmd og ef af honum verður þá þarf að huga að móttöku gestanna og það er ekki líklegt miðað við núverandi metnað í þeim málum. Heilt yfir mundi ég því vara við svona órum"