Gagnrýnir hugmyndir um hálendisveg: Segir „uppbyggða hlemmivegi“ valda umhverfistjóni
Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður, telur hugmyndir um hálendisveg norðan Vatnajökuls óraunhæfar og gerir verulegar athugasemdir við forsendur sem gefnar hafa verið fyrir verkefninu.Nokkur umræða hefur skapast um slíkar hugmyndir í kjölfar erindis Trausta Valssonar og Birgis Jónssonar á ráðstefnunni „Auðlindin Austurland“ sem Austurbrú stóð fyrir á Hallormsstað nýverið.
Í grein sem Hjörleifur ritar í Fréttablaðið í dag segir hann að ekki verði annað séð af fullyrðingum um verulega aukinn ferðamannastraum og hagkvæmni verkefnisins en að „boðberarnir sjái fyrir sér að þessum vegi verði haldið opnum mest allt árið“. Þá tekur hann fyrir þá staðhæfingu sem sett hefur verið fram, m.a. í umfjöllun Fréttablaðsins um málið, að norðan Vatnajökuls sé „úrkomuminnsta svæði Evrópu“, og telur hana augljóslega fjarri sanni.
„Samkvæmt mælingum á úrkomu í Sandbúðum árin 1973-1978 nam hún 404 mm á ári, eða hátt í það sem gerist á Mýri í Bárðardal (427 mm); er það til muna meira en á Grímsstöðum á Fjöllum (351 mm). Alhvítir dagar reyndust vera 221 í Sandbúðum en aðeins 79 dagar alauðir. Flest árin sá þar ekki í auða jörð hálft árið (nóvember-apríl) og snjór hverfur þar ekki fyrr en langt er liðið á sumar. Veðurhæð náði þriðja hvern sólarhring 9 vindstigum, sem telst stormur, 21-24 m/sek., eða þaðan af meira, þó færri árið 1977. Ofsaveður voru tíðust frá nóvember til mars.“
Þetta telur Hjörleifur að sýni að veðurfarsaðstæður séu langt frá því fýsilegar fyrir vegstæði.
„Þegar meðalvindhraði sólarhrings nær 15 m/s og hiti er undir frostmarki eru aðstæður ekki taldar góðar til björgunaraðgerða, og þegar snjóar í stormi er glórulaus bylur. Algengast er að blindbylur verði í NA- eða SV-áttum og lætur nærri að 4-5% tímans sé slíkt veður að jafnaði þar sem verst er á leiðinni yfir Sprengisand.“
Í niðurlagi greinar sinnar segir Hjörleifur ljóst að miðað við þessar aðstæður muni vegir sem þessi ekki lengja ferðamannatíma sem neinu nemur og að rekstrarkostnaður af því að halda þeim opnum yrði „gífurlegur“. Þá yrði af þeim umtalsvert umhverfistjón.
Grein Hjörleifs má finna hér á fréttavefnum Vísi.