Kastljós: Ekki reynt að nota myndefnið til að sverta álverið
Ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kastljóss segir það „tilhæfulausar staðhæfingar" að umsjónarmenn þáttarins hafi lagt sig fram um að dekkja myndefni af álveri Alcoa Fjarðaáls sem sýnt var með fréttaskýringu um flúormengun í Reyðarfirði í fyrrakvöld.Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, er meðal þeirra sem gagnrýnt hafa umfjöllun Kastljóssins. Í Facebook-færslu sem hann skrifaði eftir að þátturinn var sendur út í fyrrakvöld sagði hann „hlutdrægni" þáttarins „ótrúlega."
Þar sakar hann umsjónarmenn þáttarins um hafa verið búna að „dekkja" myndirnar og setja „Twin Peaks-fíling" í þær.
„Í hvert skipti sem myndir voru sýndar af álverinu þá voru þær dökkar og drungalegar og svo virðist sem skorsteinn verksmiðjunnar sé aðalmyndefni Kastljóss"
Hann segir síðar: „Það má gagnrýna þessa myndatöku og þetta sjónarhorn. En auðvitað finnst einhverjum það í lagi að sýna einn stærsta vinnustað Austurlands með þessum hætti. En ég stend við það að mér finnst þetta hlutdrægt."
Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóssins, segir ásakanir Jens Garðars „tilhæfulausar" og að með „ólíkindum" að hann „geri okkur upp svona ömurlegar hvatir."
Hann segir þessa umfjöllun ekki hafa verið frábrugðna öðrum fréttaskýringum Kastljóss. Myndefni notað með sama hætti og venjulega og þess gætt að báðar hliðar málsins kæmu vel fram, meðal annars að fulltrúar álversins skýrðu sína hlið.
Myndefnið hafi að mestu verið úr safni. „Myndirnar eru teknar við mismunandi birtuskilyrði og ekki eru allar myndirnar teknar á sama árstíma. Myndefnið er litaleiðrétt eins og alltaf þegar um myndir eru að ræða sem teknar eru á mismunandi tíma og við mismunandi skilyrði af ólíkum tökumönnum.
Það er til að samræma heildarútlit umfjöllunarinnar en þess jafnframt gætt að það fegri hvorki né geri aðstæður ljótari og drungalegri. Auðvitað er skorsteinninn sýndur vel og rækilega enda snýst málið að stórum hluta um hann," segir Sigmar í svari við fyrirspurn Austurfréttar um hvort myndefnið hafi verið dekkt.
Umfjöllunin sjálf snéri að háum flúorgildum í Reyðarfirði sem stafa af útblæstri frá álverinu. Flúor getur haft skaðleg áhrif fyrir dýr og lýstu bændur áhyggjur sínum af þróuninni.
Bilun hjá Fjarðaáli leiddi í fyrrasumar til þess að óvenju mikill flúor fór út í andrúmsloftið. Há gildi mældust því í grasi það sumar en athygli vakti að þau virtust óbreytt í sumar.
Umhverfisstjóri álversins sagði að það sem fór úrskeiðis sumarið 2012 hefði verið lagfært. Önnur áhrif, eins og hlýtt og þurrt sumar, hefðu líka áhrif og væru líklega skýringin á bakvið há gildi í sumar. Hann sagði alltaf færi til að gera betur, málin væru í stöðugri skoðun og áfram yrði fylgst náið með flúorþróun í Reyðarfirði.