Vetrarhlé á viðgerðum í Votahvammi
ÍAV hefur gert vetrarhlé á viðgerðum í húsum sem greinst hafa með mygluskemmdir í Votahvammi á Egilsstöðum. Framkvæmdir hafa gengið hægar heldur en vonir stóðu til.„Við erum búnir með um það bil 10 þök af 50," segir Guðmundur Magni Helgason sem stýrir verkinu á vegum ÍAV. Auk íbúðanna í Votahvammi er gert við nokkur hús á Reyðarfirði.
Vinnu var hætt um síðustu mánaðarmót en hefjast á ný þegar snjó leysir í vor. Áfram hefur verið unnið inni í nokkrum húsum og stendur til að ljúka henni fyrir jól.
Magni segir verkið í haust hafa sóst hægar en ráð hafi verið fyrir gert. Illa gekk að fá iðnaðarmenn af Austurlandi til starfa í haust en Magni vonast til að hægt verði að fjölga þeim í vor.