Arnbjörg Sveins: Björgunarsveitin er hluti af okkar vegakerfi

arnbjorg sveins des13Sveitarstjórnarmenn á Seyðisfirði segjast finna fyrir auknum skilningi meðal þingmanna og annarra yfirvalda á þörfinni fyrir að bæta úr samgöngumálum við staðinn. Þeir fagna tillögum í frumvarpi að fjárlögum næsta árs um 30 milljóna króna framlag til rannsóknaborana fyrir jarðgöng undir Fjarðarheiði.

„Það er kominn meiri skilningur á hversu mikil áhrif Fjarðarheiðin hefur á líf okkar," sagði Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar á íbúafundi í gær. Sveitarstjórnarmenn á Seyðisfirði hafa farið víða síðustu misseri og rætt við þingmenn, ráðherra og forsvarsmenn Vegagerðarinnar.

Heiðin hefur lengi verið farartálmi fyrir Seyðfirðinga og gesti þeirra. Arnbjörg sagði til dæmis sögu af þingmanni sem heimsótt hefði staðinn í sumar og þótt heiðin þá svo varasöm að hann hefði varla þorað til baka.

Um tíu kílómetrar af veginum yfir heiðina eru í 600 metra hæð, eða meira, yfir sjávarmáli sem gerir hana varasama á veturna. Undanfarin fjögur ár hafa 20-50 dagar á vetri verið skilgreindir sem vandræðadagar. Þá sé ýmist þæfingur eða ófærð á henni.

Það þýði að í raun sé hún lokuð fyrir venjulegt fólk á fjölskyldubílum þótt „jeppakarlar" komist alltaf yfir. Á fundinum var bent á að til væri fólk sem þyrði ekki af stað því það treysti ekki á færðina.

Segja má að Seyðisfjörður og Borgarfjörður séu einu þéttbýlisstaðirnir á Íslandi sem treysti á aðeins eina samgönguæð. „Björgunarsveitin er hluti af okkar vegakerfi," sagði Arnbjörg og bætti við að samgöngur á sjó væru einnig erfiðar í vondum veðrum.

Heiðin hamlar ekki bara íbúum, sem sækja annað í leik og starfi, heldur sagði Arnbjörg hana vera „helsta þröskuldinn" í því að ná nýjum fyrirtækjum á staðinn til að glæða atvinnulífið.

Eftir fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs var lagt til að bætt yrði inn 30 milljóna framlagi til „rannsókna á samgöngukostum" milli Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar.

Framlagið verður nýtt í rannsóknarboranir fyrir veggöng. „Við getum fagnað því að hafa fengið fjárveitingu í fyrstu rannsóknir," sagði Arnbjörg.

„Það er búið að rannsaka yfirborðið en nú er komið að rannsóknarborunum til að staðsetja betur væntanlega gangnamunna og þetta er upphafið að fjárveitingu til þess. Trúlega geta þær rannsóknir hafist seint á næsta ári."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar