Seyðisfjörður: Sameining núna myndi engu skila
Forsvarsmenn bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar telja óráðlegt að hefja viðræður um sameiningu sveitarfélagsins við önnur á þessari stundu. Fjárhagslega myndi hún engu skila í dag. Þá séu jarðgöng forsendan fyrir sameiningu.„Sameining núna á fjárhagslegum forsendum myndi engu skila. Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað eru í áþekkum sporum og við," sagði Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði við umræður um fjárhagsáætlun bæjarins á íbúafundi á mánudag.
„Samstarf hefur verið að aukast og heldur áfram en frekari sameiningar hafa ekki verið ræddar á vettvangi austfirskra sveitarstjórnarmanna á þessu kjörtímabili."
Í umræðutíma var spurt út í hvort verið væri að skoða sameiningar við önnur sveitarfélög og rifjuð upp fimmtán ára gömul könnun þar sem bæjarbúar létu í ljósi vilja sinn til sameiningar. Í máli fundargesta kom fram vilji til samvinnu við Fljótsdalshérað en talsverðrar tortryggni í garð Fjarðabyggðar.
Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar, sagði að sameining væri „ekki neinn kostur á meðan við höfum ekki bættar samgöngur. Ég veit að það eru mismunandi skoðanir á sameiningu innan bæjarstjórnar. Við eigum að skoða málin þegar við verðum búin að fá jarðgöngin en við fáum ekkert betri rekstur út sameiningu á þessu stigi."
Bæjarfulltrúinn Guðrún Katrín Árnadóttir sagði að sameining hefði verið skoðuð á síðasta kjörtímabili en ekki verið áhugi fyrir henni. Úr þeim umleitunum hefði meðal annars komið fram að Fjarðabyggð teldi sig eiga nóg með að klára innri sameiningu.