Seyðisfjörður: Sameining núna myndi engu skila

vill jons abba sfk des13Forsvarsmenn bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar telja óráðlegt að hefja viðræður um sameiningu sveitarfélagsins við önnur á þessari stundu. Fjárhagslega myndi hún engu skila í dag. Þá séu jarðgöng forsendan fyrir sameiningu.

„Sameining núna á fjárhagslegum forsendum myndi engu skila. Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað eru í áþekkum sporum og við," sagði Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri á Seyðisfirði við umræður um fjárhagsáætlun bæjarins á íbúafundi á mánudag.

„Samstarf hefur verið að aukast og heldur áfram en frekari sameiningar hafa ekki verið ræddar á vettvangi austfirskra sveitarstjórnarmanna á þessu kjörtímabili."

Í umræðutíma var spurt út í hvort verið væri að skoða sameiningar við önnur sveitarfélög og rifjuð upp fimmtán ára gömul könnun þar sem bæjarbúar létu í ljósi vilja sinn til sameiningar. Í máli fundargesta kom fram vilji til samvinnu við Fljótsdalshérað en talsverðrar tortryggni í garð Fjarðabyggðar.

Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar, sagði að sameining væri „ekki neinn kostur á meðan við höfum ekki bættar samgöngur. Ég veit að það eru mismunandi skoðanir á sameiningu innan bæjarstjórnar. Við eigum að skoða málin þegar við verðum búin að fá jarðgöngin en við fáum ekkert betri rekstur út sameiningu á þessu stigi."

Bæjarfulltrúinn Guðrún Katrín Árnadóttir sagði að sameining hefði verið skoðuð á síðasta kjörtímabili en ekki verið áhugi fyrir henni. Úr þeim umleitunum hefði meðal annars komið fram að Fjarðabyggð teldi sig eiga nóg með að klára innri sameiningu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar