120 milljónir í snjómokstur á Fjarðarheiði og Fagradal

Tæpum 120 milljónum var samanlagt varið í snjómokstur og hálkuvarnir á Fjarðarheiði og Fagradal á árinu 2018. Árið var í hópi þeirra snjóþyngstu á undanförnum áratug.

Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgönguráðherra, við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins frá Fáskrúðsfirði.

Árið 2018 var meðal þeirra dýrustu í vetrarþjónustu á þessum vegum síðustu ár. Kostnaður við mokstur, hálkuvarnir og búnað á Fjarðarheiði var metinn rúmar 67,5 milljónir árið 2018. Alls var varið 172 milljónum í vetrarþjónustu áhaldahússins í Fellabæ, þar af 60% til snjómoksturs.

Í svarinu, sem sýnir kostnað við snjómoksturinn eftir árum aftur til 2010, kemur fram að kostnaðurinn við að sinna Fjarðarheiðinni hafi aðeins verið hærri árið 2014, tæpar 71,3 milljónir. Vetrarþjónusta áhaldahússins í Fellabæ kostaði það ár 220 milljónir. Hlutdeild snjómoksturs fyrri helming áratugarins var 75—82% en lækkaði síðan.

Árið 2018 var tæpri 51,5 milljónum varið í snjómokstur, hálkuvarnir og búnað í vetrarþjónustu á Fagradal. Dýrasta árið var 2012, tæpar 56 milljónir og 54,6 milljónir árið 2015. Það flækir aðeins útreikningana að í bókhaldi vegagerðarinnar er vetrarþjónusta á Fagradal og Hólmahálsi, það er leiðin Egilsstaðir-Eskifjörður, á sama verknúmeri og eru kostnaður við Fagradalinn ætlaður 75% af heildarupphæðinni.

Á svæði áhaldahússins á Reyðarfirði var 94,2 milljónum varið í snjómokstur og hálkuvarnir í fyrra og var aðeins árið 2010 ódýrara. Dýrasta árið var 2015 þegar tæpri 141 milljón var varið í vetrarþjónustuna. Hlutdeild snjómoksturs hefur þar sömuleiðis farið lækkandi, úr 81% árin 2010 og 11 í 65% árið 2018.

Í svarinu er einnig sýndur heildarkostnaður við snjómokstur Vegagerðarinnar á landinu öllu. Hann var 3,4 milljarðar árið 2018, sem er með hærra móti undanfarinn áratug. Hæstur varð hann árið 2015, 3,8 milljarðar og 3,5 árið áður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.