Aðeins þriðjungur bleikjustofnsins enn í Lagarfljóti eftir virkjun?
Aðeins þriðjungur virðist eftir af þeim bleikjustofni sem var í Lagarfljóti fyrir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar. Vísbendingar eru um sambærilega fækkun urriða í fljótinu. Fiskarnir virðast einnig smærri en áður. Minnkandi ljósmagn í vatninu rýrir lífsskilyrðin.Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Veiðimálastofnunar „Fiskirannsóknir á vatnasviði Lagarfljóts, Jökulsár á Dal, Fögruhlíðarár og Gilsár 2011 og 2012" en hún var unnin fyrir Landsvirkjun.
Þar kemur fram að bleikju hafi fækkað um 62% við Hallormsstað og 69% við Egilsstaði í mælingum fyrir og eftir virkjun. Bleikja var einnig veidd í Vífilsstaðaflóa árin 2000 og 2012. Þar var fækkunin 69% en aðeins mælt einu sinn hvort ár.
Svipað magn urriða veiddist við Hallormsstað í rannsóknarveiðunum eftir virkjun og fyrir en úr þeim dró eftir því sem utar var farið á Héraðið. Mest minnkaði urriðaveiðin í Vífilsstaðaflóa, um 70%.
Ástæðan er minnkandi ljósmagn í Lagarfljóti eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjun en með henni var jökulvatn flutt frá Jökuldal og yfir í Lagarfljót. Í stað þess að ljós nái 20 sentímetra niður í vatnið við Hallormsstað og 30-60 sm. utar nær það nú 13-15 sm.
Aurstyrkur eftir virkjun er fimmfalt hærri á vorin og þrefalt hærri yfir sumarið nú en fyrir virkjun og gagnsæi vatnsins hefur minnkað um helming. „Svo miklar breytingar þýða minna dýpi sem ljós nær til sem leiðir til minnkunar í frumframleiðni, sem rekur sig upp lífkeðjuna," segir í skýrslunni.
Fæða fisktegundanna hefur breyst og virðast þær meira sækja í „landrænar" tegundir svo sem flugur heldur en áður. Þá er bent á að meðalstærð bæði bleikju og urriða í Lagarfljóti hefur minnkað eftir framkvæmdirnar. Einkum virðast yngri einstaklingar vaxa hægar en áður.
Laxveiði neðan Lagarfoss virðist hafa minnkað töluvert og bent er á að veiðin sé undir meðallagi frá árinu 2006 á sama tíma og hún hafi aukist í flestum öðrum ám á Norðausturlandi.
Rannsóknirnar sýna að lítið sé um sjógenginn fisk í Lagarfljóti. Fiskarnir sem þar halda til eru taldir aldir upp í hliðarám en færa sig út í fljótið, einkum á sumrin, til að hrygna.
Í skýrslunni er bent á að breytingarnar séu í samræmi við þar sem gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjun. Varað er við að frekari áhrif eigi enn eftir að koma fram á næstu 6-8 árum og vísbendingar séu um versnandi lífsafkomu í fljótinu. Skilyrðin í fljótinu geti til dæmis haft þau áhrif að stofnanir í hliðaránum dragist saman.
Af þeim þverám Lagarfljóts sem rannsakaðar voru fundust aðeins laxaseiði í Eyvindará en þéttleiki þeirra hefur minnkað. Fögruhlíðará er talin eiga að geta fóstrað laxaseiði og þau virðast kunna vel við sig í Laxá í Jökulsárhlíð þar sem endurheimtur eru sagðar „með besta móti". Bleikjuseiði veiddust í öllum ám nema Jökulsá í Fljótsdal og Laxá árið 2012 en þau höfðu áður veiðst í síðarnefndu ánni.