Nágrannar leggjast gegn gististað: Nægur ami af þeirri starfsemi sem þegar er í hverfinu

strandgata14 nesk kh webNágrannar í grennd við Strandgötu 14 í Neskaupstað lögðust hugmyndum um að gamla bensínskálanum verði breytt í gististað. Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð ákváðu þrátt fyrir athugasemdir í grenndarkynningu að leyfa starfsemina.

„Höfum nægan ama og truflanir af þeirri starfsemi sem þegar er í gangi í nágrenninu," segir í athugasemdum sem sjö af átta nágrönnum Strandgötu 14, sem áður hýsti bensínstöð Olís í Neskaupstað, undirrituðu í grenndarkynningu fyrir skemmstu.

Íbúarnir mótmæla frekari atvinnustarfsemi í nágrenninu og vilja ekki að gefið verði út rekstrarleyfi fyrir breyttri starfsemi á lóðinni.

Trölli ehf., sem einnig rekur Hótel Capitano, sótti um leyfi til að reka gistirými. Gert er ráð fyrir einhverjum breytingum á útliti hússins strax. Í bréfi Trölla til bæjaryfirvalda eru einnig viðraðar hugmyndir um mögulega stækkun hússins síðar enda sé lóðin 1800 fermetrar.

Nágrannarnir benda einnig á að ekki hafi verið farið í grenndarkynningu þegar byggð var upp olíuafgreiðsla fyrir Orkuna neðan við Strandgötuna fyrir nokkrum árum. „Höfum við talsvert ónæði af þeirri starfsemi og finnst ekki á bætandi," segir í bréfinu.

Bæjaryfirvöld ákváðu hins vegar að leyfa breytta starfsemi í gömlu Olísstöðinni. Í bókun er bent á að fordæmi séu fyrir sambærilegri starfsemi í íbúðahverfum annars staðar í sveitarfélaginu. Þær athugasemdir sem borist hafi gefi ekki tilefni til að hafna beiðninni.

Mynd: Kristin Hávarðsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar