Fjarðabyggð afturkallar hækkanir á gjaldskrám í skólum

jens gardar helgason mai12Bæjarráð Fjarðabyggðar ákvað á fundi sínum í morgun að fella úr gildi hækkun á gjaldskrám leikskóla, skóladagheimila og tónlistarskóla.

„Með þessu er verið að koma á móts við fjölskyldurnar í Fjarðabyggð," sagði Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs á Facebook-síðu sinni fyrr í dag.

Í greinargerð ráðsins segir að með þessu vilji sveitarfélagið leggja sitt af mörkum til að verðlag haldist stöðugt. Sveitarfélagið hafi „undanfarin ár stillt gjaldskrárhækkunum í hóf." Þess í stað hafi hagræðingar verið leitað í rekstrinum og tekjugrunnurinn styrktur með fleiri atvinnutækifærum.

Gjaldskrár leikskóla og skóladagheimila hækkuðu þann 1. janúar sl. um 3% og um 10% hjá tónlistarskólum Fjarðabyggðar. Með því móti átti að mæta verðlagshækkunum, en umrædd gjöld hafa staðið óbreytt frá 1. janúar 2012. Nemur hækkun verðlags á tímabilinu alls 8,5%. Gjöldin fyrir þessa þjónustu verða því þau sömu og árin 2012 og 2013.

Ekki hefur verið gert ráð fyrir að gjaldskrár hækki fyrir skólamáltíðir eða í sundlaugar eða Skíðamiðstöðina Oddsskarði fyrir börn og unglinga. Þá var aldursviðmið í gjaldskrám sundlauga og skíðamiðstöðvar hækkað úr 16 í 18 ár, sem lækkar gjaldtöku umtalsvert í þessum aldurshópi.

Eftir standa hækkanir á árgjöldum bókasafna og í sund og líkamsrækt fyrir fullorðna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar