Hannesi dæmdar tæpar 15 milljónir króna í bætur fyrir vangoldin laun hjá HSA

HSA merkiHeilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) var í dag dæmd til að greiða Hannesi Sigmarssyni, fyrrum yfirlækni í Fjarðabyggð, tæpar 14,9 milljónir króna með dráttarvöxtum í vangoldin laun. Dómurinn taldi stofnunina ekki hafa sýnt fram á lagarök fyrir að rifta ráðningarsamningi einhliða með því að taka Hannes af launaskrá í júlí 2009.

Hannes var sendur í leyfi í febrúar árið 2009 eftir að grunur vaknaði að ekki væri allt með felldu við reikningsgerð hans til stofnunarinnar. Stjórnendur HSA kærðu málið til lögreglu en Hannes átti að halda fullum launum á meðan málið væri rannsakað. Lögreglurannsóknin var síðan felld niður þar sem ekki þótti líklegt að ákæra myndi leiða til sakfellingar.

Í júlí 2009 var Hannes felldur út af launaskrá HSA, meðal annars á þeim forsendum að hann hefði ráðið sig til læknisstarfa í Svíþjóð og stofnað eigin fyrirtæki. Málsvörn sína byggði HSA meðal annars á því að Hannes hefði borið að tilkynna það til stofnunarinnar.

Með vinnu sinni erlendis hafi hann ekki verið tiltækur fyrir HSA en því hefur Hannes mótmælt og lýst að hann hefði með skömmum fyrirvara getað snúið aftur. Stofnunin hafi hreinlega bannað honum að mæta aftur til vinnu. Af hálfu HSA var einnig deilt á Hannes fyrir að hafa ekki sinnt boði um að gefa skýrslu hjá lögreglu til að flýta fyrir rannsókn á máli hans.

Ekki heimilt að taka einhliða ákvörðun um niðurfellingu launa

Í dóminum frá í dag kemur fram að þótt Hannesi hafi borið að tilkynna vinnu sína annars staðar þá hafi það ekki veitt stofnuninni heimild til að fella hann umsvifalaust út af launaskrá. Þvert á móti hafi stofnunin haft það úrræði samkvæmt starfsmannalögum að banna honum að vinna annars staðar.

Dómurinn telur að með þessu hafi stofnunin einhliða tekið ákvörðun um ráðningarsamband sitt og Hannes í kjölfarinu orðið að afla sér tekna annars staðar. Dóminum þykir ekki ljóst á hvaða lagagrundvelli HSA hafi talið sér heimilt að fella alfarið niður launagreiðslurnar.

Ekki þykir heldur gerð grein fyrir því hvernig vanræksla Hannesar réttlæti launaniðurfellinguna þar sem ekki hafi verið sýnt fyrir að HSA hafi borið fjárhagslegt tjón af fjarveru hans.

Vinnulaunamáli áður vísað frá

Í lok desember 2009 var Hannesi sagt upp störfum frá og með áramótum. Uppsagnafrestur hans voru fjórir mánuðir en honum var tilkynnt að hann þyrfti ekki að vinna uppsagnarfrestinn. Uppsögnin byggði upp á að hann hefði ofreiknað laun sín, læknisfræðilegum vinnubrögðum væri ábótavant, ítrekað óhlýðnast fyrirmælum yfirmanna og komið illa fram við samstarfsfólk. Talið var að áminning myndi ekki duga.

Hannes taldi uppsögnina ólögmæta og gerði athugasemdir um að andmælaréttur hans hefði í fleiri en einu atriði verið vanvirtur.

Hannes höfðaði mál gegn HSA og þáverandi forstjóra, Einari Rafni Haraldssyni, en dómur féll í því í nóvember 2012. Einar Rafn var dæmdur til að greiða Hannesi miskabætur fyrir meiðyrði og yfirlæknirinn fyrrverandi til að borga til baka tæpa 1,3 milljónir króna sem hann viðurkenndi að hafa ofreiknað.

Kröfu hans þá um skaðabætur fyrir ólögmæta uppsögn var þá vísað frá þar sem málatilbúnaðurinn þótti óljós. Hann höfðaði því slíkt mál á ný en sem fyrr segir var dæmt í því í dag.

Fór fram á 23 milljónir

Hannes fór alls fram á 23 milljónir, tæpar 16 milljónir í vangoldin laun frá júlí 2009 til loka apríl 2010. Að auki fór hann fram á bætur fyrir ótekið orlof og námsfrí. Hann sagði HSA hafa verið óheimilt að fella einhliða niður launagreiðslur hans á meðan ráðningarsamningur var í gildi, en hann var ótímabundinn frá árinu 2006.

HSA hélt því fram að Hannes hefði slitið vinnusambandinu með því að stofna til atvinnurekstrar án tilkynningar. Á það féllst dómurinn ekki. Að hans mati var ekkert í gögnum málsins sem studdi að HSA liti svo á að Hannes væri búinn að slíta ráðningarsamkomulaginu, uppsögnin sé meðal annars til marks um það.

HSA hélt því einnig fram að Hannes hefði sýnt af sér tómlæti með því að svara ekki tilkynningunni frá í júlí 2009 um að hann yrði tekinn af launaskrá. Dómurinn hafnaði þeim rökum þar sem í bréfinu hefði ekki falist nein áskorun um viðbrögð.

Dæmd tíu mánaða laun

Dómurinn dæmdi því HSA til að greiða Hannesi tæpar sextán milljónir króna í vangoldin laun. Að hluta til var fallist á kröfu hans um greiðslu ótekins orlofs en ekki tekið undir kröfu um að fá námsfrí greitt.

Frá upphæðinni dragast laun sem Hannes aflaði sér með vinnu annars staðar á uppsagnarfrestinum í byrjun árs 2010 og sú upphæð sem hann var áður dæmdur til að greiða fyrir ofreiknuð verk.

Heilbrigðisstofnun Austurlands á því að greiða Hannesi Sigmarssyni 14,9 milljónir í vangoldin laun fyrir tímabilið júlí 2009 til apríl 2010 auk dráttarvaxta, eða frá því að hann var tekinn af launaskrá og þar til uppsagnarfresturinn rann út. Stofnunin þarf einnig að greiða honum 1,1 milljón króna í málskostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar