HSA: Upphæðin kemur á óvart

Kristin-Bjorg-AlbertsdottirForstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands segir það hafa komið á óvart hversu háar bætur stofnunin hafi verið dæmd til að greiða fyrrverandi yfirlækni í Fjarðabyggð fyrir vangoldin laun. Ákvörðun um framhald málsins verður þar tekin á næstu dögum.

„Niðurstaðan kemur í sjálfu sér ekki á óvart en þó átti ég von á að fjárhæðin yrði heldur lægri en raunin varð," segir Kristín B. Albertsdóttir, forstjóri stofnunarinnar.

Héraðsdómur Austurlands dæmdi í gær HSA til að greiða Hannesi Sigmarssyni, fyrrverandi yfirlækni í Fjarðabyggð, tæpar 15 milljónir króna fyrir vangoldin laun frá júlí 2009 til apríl 2010.

Dómurinn taldi að HSA hefði ekki verið heimilt að taka Hannes einhliða af launaskrá í júlímánuði 2009. Honum var síðar sagt upp störfum í desember sama ár með fjögurra mánaða uppsagnarfresti.

Málsvörn HSA byggðist meðal annars á því að Hannes hefði ráðið sig erlendis í vinnu og stofnað eigið fyrirtæki án þess að tilkynna stofnuninni um það. Varakrafa stofnunarinnar byggðist meðal annars á að arður fyrirtækisins yrði dregin frá kröfu Hannes.

Á það féllst dómurinn ekki en lækkaði þess í stað skaðabæturnar í samræmi við þau laun sem Hannes ávann sér á uppsagnarfrestinum.

„Við munum fara yfir dóminn og taka ákvörðun um framhaldið í samráði við ríkislögmann," sagði Kristín í svari við fyrirspurn Austurfréttar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar