AFL: Verslunarmenn felldu kjarasamninga en verka- og iðnaðarmenn samþykktu

afl atkvaedagreidslaVerslunarmenn innan AFLs starfsgreinafélags felldu nýgerða kjarasamninga í kosningum. Samningar verka- og iðnaðarmanna voru samþykktir með naumum meirihluta.

Verslunarmenn felldu samninginn við Landssamband íslenskra verslunarmanna með tveimur þriðju atkvæða en kjörsókn í deildinni var um 40%, að því er fram kemur á vef AFLs.

Í verkamannadeild samþykktu 51,56% samninga við Samtök atvinnulífsins en 47,92% greiddu atkvæði gegn honum. Kjörsókn var 39,6%.

Í iðnaðarmannadeildinni voru samningarnir staðfestir með 54,3% en 45,7% sögðu nei. Kjörsókn var 42,7%.

Kjarasamningar þeirra deilda sem samþykktu ganga því í gildi um áramótin en samningaviðræður um samning verslunarmanna hefjast fljótlega á nýju. Eldri kjarasamningur er því enn í gildi.

Í frétt á vef félagsins segir að kjörsókn í öllum deildum hafi verið „mjög góð og umfram væntingar." Þar kemur jafnframt fram að snemma í kynningu á nýju samningunum hafi verið ljóst að verulega skiptar skoðanir væru um þá meðal félagsmanna. Því hafi áhersla verið lögð á að fá sem mesta kjörsókn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar