Björt framtíð með 10% í Fjarðabyggð: Breytir stöðunni að við mælumst með mann inni
Stjórnarformaður Bjartrar framtíðar segir allt opið í framboðsmálum hreyfingarinnar á Austurlandi hún mælist með mann inni í bæjarstjórn Fjarðabyggðar miðað við skoðanakönnum sem birtist í morgun. Varabæjarfulltrúi Fjarðalistans, sem situr í stjórn Bjartrar framtíðar, segist ekki vilja kljúfa sig frá Fjarðalistanum. Framsókn græðir einnig fylgi en Sjálfstæðisflokkur og Fjarðalisti tapa.„Ég útiloka alls ekki framboð í Fjarðabyggð. Auðvitað breytir það stöðunni að við mælumst með fólk inni," sagði Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar sem hefur yfirumsjón með sveitarstjórnarmálum hreyfingarinnar, í samtali við Austurfrétt.
Morgunblaðið birti í morgun niðurstöður skoðanakönnunar þar sem Björt framtíð mælist með 9,7% fylgi í sveitarfélaginu og einn bæjarfulltrúa.
Samkvæmt heimildum Austurfréttar hefur ekki staðið til að Björt framtíð myndi bjóða fram í Fjarðabyggð eða annars staðar á Austurlandi í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
Heiða Kristín segir að Björt framtíð hafi leitað að fólki um allt land til að vinna með hreyfingunni í vor en leggur áhersla á að frumkvæðið komi frá heimamönnum.
„Ef það er áhugi þá förum við og skoðum málin alls staðar með opnum hug. Við höfum sérstakan áhuga á að virkja ungt fólk til að starfa með okkur og hvetjum fólk til að hafa samband."
Vill ekki kljúfa sig frá Fjarðalistanum
Stefán Már Guðmundsson, varabæjarfulltrúi Fjarðalistans situr í stjórn Bjartrar framtíðar á landsvísu og var ofarlega á lista hennar í þingkosningum í fyrra. Í samtali við Austurfrétt sagðist hann ekki hafa áhuga á að kljúfa sig frá Fjarðalistanum.
„Ég hef af persónulegum ástæðum óskað eftir að færa mig aftar hjá Fjarðalistanum. Ég hef fundið fyrir stuðningi við Bjarta framtíð hér í Fjarðabyggð ég myndi vilja koma á fót undirfélagi Bjartrar framtíðar sem myndi styðja við fulltrúa á Fjarðalistanum.
Af minni hálfu er ekki áhugi á að kljúfa sig frá Fjarðalistanum en ég stjórna hreyfingu Bjartrar framtíðar vissulega ekki alfarið einn"
Meirihlutinn með 60% fylgi
Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, sem mynda meirihlutann í bæjarstjórninni, mælast stærstir með 31,2%. Hvor flokkur hlyti þrjá bæjarfulltrúa sem þýðir að framsókn vinnur til sín mann af samstarfsflokknum.
Miðað við úrslit síðustu kosninga bætir Framsókn við sig þremur prósentustigum en Sjálfstæðisflokkurinn tapar tíu.
Fjarðalistinn tapar einnig tæpum átta prósentum og manni til Bjartrar framtíðar. Listinn virðist einnig tapa fylgi til Pírata sem mælast með 3,8% fylgi. Aðrir mögulegir listar mælast með 0,5% fylgi.