Sandi rigndi yfir flugfarþega: Ókyrrð sem sást ekki á veðurspám

flug flugfelagislands egsflugvFarþegum sem fóru með kvöldflugi Flugfélags Íslands austur í Egilsstaði í gærkvöldi var nokkuð brugðið eftir mikla ókyrrð. Vélinni var snúið við eftir að hafa orðið fyrir sterkri fjallabylgju þegar hún var á leið inn til lendingar.

„Það er rétt að flugið austur í gærkvöldi gekk ekki eins og skyldi og lenti óvænt í töluverðri ókyrrð. Þetta var ókyrrð sem ekki var hægt að sjá fyrir í veðurspám og því kom hún á óvart," segir Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands.

Vélin fór úr Reykjavík um klukkan sex í gærkvöldi og framan af gekk flugið eðlilega fyrir sig. Farþegi sem Austurfrétt ræddi við í dag segir að þegar hafið hafi verið aðflug að Egilsstaðavelli hafi fyrst komið „nokkur högg" en síðan „völdin verið tekin af vélinni."

Hún hafi snúist, tekið hnykki og högg og loks „dúndrast niður" þannig að blöð úr vösum úr sætisbökum flugu upp úr þeim og sandi úr teppinu rigndi yfir farþega.

Þá hafi allt verið gefið í botn og vélin verið rifin upp úr ókyrrðinni. Henni var snúið við og lent á Reykjavíkurflugvelli klukkan rúmlega átta.

Í bakaleiðinni útskýrði flugstjórinn fyrir farþegum að hún hefði rekist á sterkari fjallabylgju en búist hafði verið við, vindurinn hafi verið yfir 60 hnútar sem jafngildir 30 metrum á sekúndum.

Farþegar voru margir hverjir skelkaðir og mátti heyra grátur og óp þegar lætin voru sem mest. Þeim var boðin áfallahjálp í morgun. „Við höfum það fyrir reglu að þegar um veruleg óþægindi fyrir farþega í flugi eins og átti sér stað í gærkvöldi að bjóða farþegum upp á áfallahjálp.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar