Skora á bæjarstjórn Fjarðabyggðar að gera við sundlaug Reyðarfjarðar

Nemendur fjórða bekkjar grunnskóla Reyðarfjarðar hafa skorað á bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð að gera gangskör að því að lagfæra sundlaug Reyðarfjarðar og opna á nýjan leik sem fyrst. Nemendurnir reiðubúnir að safna sjálfir fjármunum til verksins með ýmsum hætti.

Það er eftir miklu að slægjast að sundlaugin sú verði lagfærð og opnuð á nýjan leik að mati nemendanna sem hafa lengi vel þurft að taka allt sitt skólasund í sundlauginni á Eskifirði með tilheyrandi óþægindum eins og fram kemur í bréfi þeirra:

„Okkur finnst svakalega erfitt og leiðinlegt að taka rútu alla leið til Eskifjarðar til að fara í sund. Það tekur 10 - 15 mínútur að að keyra til Eskifjarðar og sömuleiðis til baka. Þetta veldur því að við erum sársvöng áður en sundkennsla hefst og komum þar af leiðandi 50 mínútum seinna í hádegismat en við erum vön. Einnig missum við af frímínútum sem eru okkur nauðsynlegar til að losa út orku fyrir næstu tíma.“

Þá bendir bekkurinn á að einn bekkjarfélagi þeirra sé fjölfatlaður einstaklingur sem geti alls ekki farið í sund á Eskifirði sökum lélegs aðgengis fyrir fatlaða einstaklinga. Sundtímar á Eskifirði falli of oft niður vegna veðurs eða bilana og síðast en ekki síst kosti það mikla peninga og loftmengun að auki að fara alltaf langa leið í sund með rútum.

Reiðubúin að leggja hönd á plóg

Nemendurnir vilja gjarnan hjálpa til með fjáröflun ef það kynni að flýta viðgerð. Þau hafa rætt sín á milli um að safna dósum, halda kökubasar, setja upp söfnunarbauka í Molanum, búa til og selja heimagerða leirmuni eða aðra hluti sem þau eru hætt að nota. Þau meira að segja viljug til að taka öll þátt í Teiknikeppni Mjólkursamsölunnar og ef þau vinna, setja alla upphæðina í sundlaugarsjóð.

Það súrt að fara langar leiðir í útilaug þegar innilaug er þegar til staðar í íþróttahúsinu. Mynd Fjarðabyggð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.