Kubbur tekur við sorphirðu í Múlaþingi og Fljótsdal um mánaðamótin
Kubbur ehf. tekur við sorphirðu í Múlaþingi og Fljótsdal frá og með 1. nóvember. Fyrirtækið varð í sumar hlutskarpast um útboð á þjónustunni.Boðnir voru út þrír verkhlutar. Í fyrsta lagi sorphirða frá heimilum í sveitarfélögunum, rekstur móttökustöðva á Egilsstöðum og Seyðisfirði og gámaleiga og þjónusta við gámastöð á Djúpavogi.
Heimilt var að bjóða í staka verkþætti og sveitarfélögunum heimilt að semja við ólík fyrirtæki um hvern þátt til að fá bestu samtöluna. Þetta þýddi að fyrirtækin gátu valið milli tveggja tilboðsleiða. Annars vegar að bjóða í staka verkþætti, sem stæðu óháðir hvort fyrirtækið fengi aðra þætti, eða hins vegar að bjóða í 2-3 verkhluta, háð því að fá aðra sem fyrirtæki byði í.
Tilboð bárust frá fimm fyrirtækjum í alla þrjá verkhlutana. Þrjú þeirra voru hins vegar ekki talin uppfylla skilmála útborðsgagna um skil á upplýsingum og því metin ógild. Meðal annars var beðið um upplýsingar um að fyrirtækið væri ekki í vanskilum með opinbergjöld eða lífeyrissjóðsgrundvöll, afrit af skattskýrslum og ársreikningum, skrá yfir mögulega undirverktaka, tæki og búnað og meðmæli frá öðrum sveitarfélögum þar sem félagið starfar.
UHA umhverfisþjónusta kærði sveitarfélögin fyrir óeðlilega útboðsskilmála. Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði sveitarfélögunum í hag. Sami einstaklingur á 50% í UHA, Umhverfisþjónustu Austurlands og Emblu Green Solutions sem öllu gerðu tilboð.
Eftir stóðu þá tilboð Kubbs og Íslenska gámafélagsins. Kubbur var þar töluvert lægri og undir kostnaðaráætlun. Samningar við Kubb liggja nú fyrir og tekið fyrirtækið við um mánaðamót. Samið er til fjögurra ára, eða út október 2028. Heimilt er að framlengja samninginn tvisvar sinnum um ár í viðbót.
Kubbur er með höfuðstöðvar sínar á Ísafirði en sér um sorphirðu víða um land, svo sem Ísafjarðarbæ, Bolungarvík, Ölfusi, Vestmannaeyjum, Snæfellsbæ og Kópavogi. Þá þjónustar fyrirtækið Fjarðabyggð og komst í fréttirnar í haust fyrir miklar tafir á sorphirðu þar.