Daniel Byström: Keppið ekki við nágrannana heldur aðra áfangastaði
Sænski hönnuðurinn Daniel Byström segir að hönnun áfangastaða snúist ekki bara um upplifun ferðamanna heldur íbúanna líka. Austfirðingar hugsa hvernig þeir vilji miðla ímynd svæðisins.Þetta kom fram í máli Byström sem var meðal fyrirlesara á aðalfundi Samtaka aðila í ferðaþjónustu (SAF) sem haldinn var á Egilsstöðum í gær en hann hefur unnið með ferðaþjónustuaðilum á svæðinu í að hanna ímynd þess.
Þar er meðal annars lögð áhersla á spurningar eins og hvað Austurland vilji vera, hvaða tilfinningar og minningar menn vilja skapa frá svæðinu, hverjar hefðir svæðisins eru og hvers virði afurðir þess séu.
„Ferðin og upplifunin er ekki bara fyrir gestina heldur líka núverandi og fyrrverandi íbúa," sagði Daniel.
Hann hefur unnið í verkefnum bæði í heimalandi sínu og Noregi, til dæmis Åre, Gällivari og Kiruna. Þar er menningu, sögu, handverki og náttúru svæðisins ofið saman í eina heild. Eins er reynt að tryggja að upplifunin sé samræmd út í gegn með útliti staðarins í heild.
„Hönnunin snýst um að að segja góða sögu allan tíman, bæði fyrir heimsókn, á meðan henni stendur og eftir hana. Allt fellur undir hana, öll skilningarvit og allar tilfinningar."
Allt skiptir máli þegar keppt er á stóra sviðinu. „Við hverja keppum við? Ekki nágrannana heldur aðra áfangastaði hvar sem er í heiminum."
Hann minnti þó á að það séu heimamenn og viðmót þeirra sem skipti mestu máli í upplifuninni þótt tilgangur flestra ferðamanna sé að upplifa náttúruna. „Bestu minningarnar sem ég á af ferðum mínum, þar með talið á Austurlandi, eru af fólki."