Útgáfa veikindavottorða: Hluti skráðra veikinda hugsanlega ekki raunveruleg

petur heimisson 07Framkvæmdastjóri læknina hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands segir að stöðug umræða sé innan læknastéttarinnar um útgáfu veikindavottorða. Framkvæmdastjóri segir frjálslega útgáfu þeirra kosta atvinnurekendur háar fjárhæðir á hverju ári.

„Í þessum efnum sem öðrum ber okkur læknum að ástunda vönduð og fagleg vinnubrögð, en hér sem annars staðar má lengi má bæta.

Umræða um læknisvottorð er á stundum mikil í röðum lækna og samtal á breiðari grunni með aðkomu lækna og samtaka þeirra væri að mínu mati af hinu góða," segir Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá HSA.

Í vikublaðinu Austurglugganum á föstudag velti Guðmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Sjónaráss, upp þeirri spurningu hvort útgáfa veikindavottorða væri heldur „frjálsleg."

Svo virðist sem launafólk álíti veikindadaga sem rétt til frítöku og Guðmundi finnst læknarnir of duglegir að skrifa upp á veikindavottorð en hann kallar þetta „misnotkun launafólks og handvömm lækna"

Á þessu verði að taka því þetta kosti atvinnurekendur milljónir á ári sem nota mætti í annað.

Pétur segist sammála Guðmundi að fullt erindi sé til að þess að halda umræðunni á lofti.

„Á sama tíma og ég svara því almennt neitandi, þegar spurt er hvort læknar gefi út vottorð út í bláinn – þá vil ég líka segja að þegar reyndur atvinnurekandi tjáir sig á þann hátt, er hann því miður ekki að tala út í bláinn.

Það er mitt mat að talsvert sé til í því að að hluti skráðra veikinda, einkum í einn til örfáa daga, séu á gráu svæði og hugsanlega ekki raunveruleg veikindi."

Engar forsendur til að rengja vottorð lækna

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, segir rétt launafólks til launa í veikindum einn mikilvægasta rétt þess. Sá réttur sé hluti heildarkjara sem samið er um í kjarasamningum og vandséð hvernig eigi að taka þann hlut út fyrir sviga og fjalla sérstaklega um, nema skoða þá kjör í heild.

„Læknisvottorð um vinnuhæfi fólks eru gefin út af læknum með embættispróf. Hvað liggur að baki þessu mati læknis hverju sinni kemur ekki fram á vottorðum og er einkamál einstaklings og læknis og hvorki ég né Guðmundur Gíslason höfum nokkrar forsendur til að efast um eða rengja þessi vottorð," sagði Sverrir.

Sverrir segir misnotkun veikindaréttar að sjálfsögðu alvarlegt mál og að verkalýðsfélög hafi aldrei varið slíkt. Þvert á móti sé lögð á það áhersla í samtölum við félagsmenn og við kynningar á kjarasamningum að samningar séu gagnkvæmir og báðum aðilum beri að virða kjarasamninga.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.