Brugghús stofnað á Austurlandi: Vonum að Austfirðingar líti á bjórinn sem sitt öl

fellabaer agust14 0005 webAthafnamenn á Austurlandi undirbúa stofnun brugghúss í Fellabæ undir merkjum Austra. Þeir segja töluverða eftirspurn meðal gesta á svæðinu um staðbruggað öl.

Það var á bjórkynningu að hugmyndin kviknaði um hvort gerlegt væri að staðbrugga öl á Austurlandi. „Þetta hófst allt saman í vetur þannig að aðdragandinn hefur verið skammur," segir Karl S. Lauritzson, einn stofnenda félagsins.

„Að hluta til er verið að svara eftirspurn, en ferðamenn spyrja talsvert um staðbruggað öl, á hótelum og veitingastöðum. Svo fylgja því ýmsir kostir að staðsetja framleiðsluna hér."

Þar nefnir Karl aðgengi að góðu vatni, ódýrri orku og „líklega ódýrustu flutningsgáttinni inn í landið," sem er með Norrænu. „Flöskurnar eru það dýrasta við framleiðsluna eru flöskurnar. Annar efniskostnaður við ölgerðina er óverulegur," segir Karl.

Flöskur og annað hráefni eru fluttar inn í gámum sem stutt er að flytja frá Seyðisfirði upp á Hérað, en þar verður brugghúsið staðsett.

Framleiðslan verður staðsett í Fellabæ nánar tiltekið að Lagarfelli 7 þar sem Plastiðjan Ylur var áður til húsa. „Það er von okkar stofnendanna að Austfirðingar líti á framleiðsluna sem sitt öl."

Í brugghúsinu verður einnig tappað á kúta fyrir veitingahús. Þá eru menn að fá nýjan bjór en hann er bestur nýr og gæðin þverra hratt með aldri. Best er að súrefni komist sem minnst í snertingu við hann fyrir neyslu.

Næsta fimmtudag kl. 20.00 verður haldinn opinn kynningarfundur í Sláturhúsinu þar sem undirbúningur og áætlanir verða kynntar og mönnum gefinn kostur á að fjárfesta í félaginu. Allir geta gerst hluthafar og kveðst Karl vonast til að sjá sem flesta á fundinum.

Til að framleiðslan verði að veruleika, þarf lágmarks hlutafé og náist það ekki, verður ekki farið af stað. Þegar hafa fengist styrkir úr Uppbyggingasjóði Austurlands og Atvinnuþróunarfélagi Fljótsdalshéraðs sem verða nýttir til að framkvæma þá undirbúningsvinnu sem þarf.

„Til að framleiða góðan bjór, er nauðsynlegt að fá fram álit sem flestra." segir Karl. „Enginn einn veit hvernig góður bjór á að vera, árangurinn byggir á fjöldanum."

Stór hluti stofnkostnaðarins eru endurbætur sem gera þarf á húsnæði en hluthafar geta bætt við hlut sinn með því að leggja fram vinnuframlag. En dýrast af öllu verða þó kaup á bruggtækjum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar