Hæstiréttur snéri við dómi héraðsdóms: Forkaupsrétturinn snýst um fiskiskip en ekki hlutabréf

beitir feb14Kaup Síldarvinnslunnar á útgerðarfélaginu Berg-Huginn í Vestmannaeyjum eru að fullu staðfest tæpum þremur árum eftir að samið var um þau í kjölfar þess að Hæstiréttur snéri við dómi héraðsdóms sem taldi Vestmanneyjabæ eiga forkaupsrétt að félaginu. Hæstiréttur taldi kaupin snúast um hlutabréf en ekki fiskiskip.

Í lok ágúst 2012 var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á Berg-Huginn af félaginu Q44 ehf. Vestmannaeyjabær taldi sig eiga forkaupsrétt á grundvelli laga um stjórn fiskveiða

Þar segir að ef selja eigi fiskiskip sem hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni til útgerðar í öðru sveitarfélagi hafi sveitarstjórnin þaðan sem skipið er rétt forkaupsrétt. Síldarvinnslan og Q 44 héldu á móti fram að verið væri að selja hlutabréf en ekki fiskiskip.

Héraðsdómur Reykjavíkur ógilti kaupin fyrir ári á þeim forsendum að rökin um kaupin á hlutabréfunum væru haldlítil. Þá taldi dómurinn ákvæðið í lögunum þannig að vernda ætti byggðarsjónarmið. Enn fremur var kaupsamningurinn túlkaður Vestmannaeyjabæ í vil þar sem hann var ekki lagður fram í dóminum.

Hæstiréttur snéri dómi héraðsdóms við en hluti kaupsamningsins var lagður fram við áfrýjunina.

Fiskiskip er bara fiskiskip

Í dómi Hæstaréttar segir að kaupsamningurinn sé gerður um hlutabréf en ekki fiskiskip. Enginn vafi sé fólginn í hvað felist í orðinu fiskiskip og ekki sé hægt að túlka það víðar því forkaupsrétturinn horfi til takmörkunar á friðhelgi eignaréttar.

Samkvæmt ársreikningi Bergs-Hugins námu eignir félagsins í lok árs 2011 4,46 milljónum króna. Þar af voru skipin Bergey og Vestmannaey metin á 970 milljónir en veiðiheimildir á tæpa þrjá milljarða.

Í kaupsamningnum kemur fram að kaupverðið nemi um 2,9 milljörðum króna. Inni í því séu aflaheimildirnar, togararnir tveir auk fasteigna á Geirseyri og Básaskersbryggju. Eigið fé Bergs-Hugins var neikvætt um 2,8 milljarða samkvæmt ársreikningi 2011.

Í dómi Hæstaréttar segir að ekki hafa verið leiddar líkur að því að verið sé að reyna að færa viðskipti með fiskiskip í annan búning, ólíkt því sem héraðsdómur virðist gera.

Ennfremur en bent á að þótt heimilað sé í lögum að framselja aflahlutdeild skips komi þar ekkert fram um forkaupsrétt sveitarfélaga að henni.

Fimm hæstaréttardómarar voru sammála um að sýkna bæri Síldarvinnsluna og Q44 af kröfu Vestmannaeyjabæjar. Á vef Síldarvinnslunnar fagnar Gunnþór Ingvason niðurstöðunni og segir hana í samræmi við afstöðu Síldarvinnslunnar frá fyrsta degi. Eftir þrjú ár sé staðfest að þeir sem komu að viðskiptunum hafi starfað innan ramma laganna.

Flétta í skuldauppgjöri athafnamanns

Útgerðarfélagið Bergur-Huginn var lengst af í eigu athafnamannsins Magnúsar Kristinssonar. Árið 2008 varð 4,6 milljarða tap af rekstri þess og eigið fé neikvætt um 4,2 milljarða í árslok. Magnús átti þá rúm 80% í félaginu í eigin nafni en tæp 20% voru í eigu BK44 og Smáeyjar ehf.

Í skuldauppgjöri milli Magnúsar og Landsbankans eignaðist bankinn helming hlutar Magnúsar auk 4% hlutar Smáeyjar og fékk veð í þeim hlut sem Magnús hélt eftir.

Árin 2009-11 varð hagnaður af rekstri útgerðarinnar sem bætti eigin fjárstöðu hennar um 1,4 milljarða, eins og fyrr segir.

Þann 28. ágúst 2012, sama dag og Síldarvinnslan keypti bréfin af Q44 ehf. eignaðist Q44 öll bréf Magnúsar, BK 44 og Landsbankans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar