Eistnaflug: Þjónustugjaldið stendur bara undir hluta kostnaðar sveitarfélagsins

eistnaflug 2014 0105 webKurr hefur verið meðal tónleikagesta á Eistnaflugi með þjónustugjald sem bætist við miðaverð á hátíðina. Sveitarfélagið Fjarðabyggð ber umtalsverðan kostnað af hátíðarhaldinu.

Helgarpassinn kostar 15 þúsund krónur en til viðbótar þarf að greiða 2000 krónur í þjónustugjald til Fjarðabyggðar. Það hefur lagst misjafnlega í gesti hátíðarinnar.

Helga Guðrún Jónasdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar, segir gjaldið vera innheimt til að standa straum af aukinni gæslu, salernisaðstöðu, tónleikaaðstöðu, hreinsun, eftirliti og umsjón af hálfu sveitarfélagsins í kringum hátíðarinnar. Á móti hafi sérstakt gjald á hátíðartjaldstæði verið fellt niður.

Hátíðin hefur vanalega farið fram í Egilsbúð en var nú færð yfir í íþróttahúsið í Neskaupstað. Bæði gestum og tónleikum hefur fjölgað verulega á síðustu ár.

Gjaldið var auglýst á heimasíðu Eistnaflugs en virðist samt hafa komið mörgum tónlistargestum á óvart.

Helga Guðrún segir þjónustugjaldið yfirleitt vera innifalið í miðaverði. Sú leið hafi ekki verið valin nú en þar sem gjaldtakan sé tiltölulega ný af nálinni en fyrirkomulag hennar sé enn í mótun.

Hún ítrekar að gott samstarf sé milli Fjarðabyggðar og hátíðarhaldara á Eistnaflugi. Gjaldið sé aðeins upp í hluta þeirrar vinnu sem sveitarfélagið leggi til við hátíðina.

„Skipulagning af hálfu sveitarfélagsins er umtalsverð ásamt utanumhaldi á þeim þáttum sem snúa að innviðum bæjarins.

Samhliða rekstri á salernum, gæslu á tjaldsvæði og í bænum, sorphirðu, þjónustu á tjaldsvæði og öðrum beinum kostnaði, fylgir stórhátíð sem þessari umtalsverður óbeinn kostnaður, s.s. vegna gjaldfrjálsra afnota af íþróttahúsi og öðru húsnæði í eigu sveitarfélagsins, umsýslu og síðan aðkomu starfsmanna sveitarfélagsins með ýmsum hætti.

Á heildina litið stendur þjónustugjaldið ekki undir þessum kostnaði nema að hluta til. Beinir styrkir eða fjárstuðningur hafa því ekki komi til tals í ljósi þessarar umtalsverðu beinu og óbeinu kostnaðarhlutdeildar sveitarfélagsins."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.