Mesta starfsánægjan í Verkmenntaskólanum
Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað fékk hæstu einkunn austfirskra ríkisstofnana í úttekt SFR á stofnun ársins. Menntaskólinn á Egilsstöðum er meðal hástökkvara ársins á landsvísu. Úttektin byggist einkum á ánægju starfsmanna með stofnun sína.Verkmenntaskólinn varð í tíunda sæti á landsvísu í flokki stofnana með 20-49 starfsmenn með einkunnina 4,264. Landsmeðaltalið var 3,945.
Menntaskólinn á Egilsstöðum er meðal þeirra stofnana sem hækka sig mest á milli ára, fær 3,909 í einkunn í ár en var með 3,667 í fyrra og er í 27. sæti flokksins.
Lögreglan á Austurlandi er í 35. sæti af 49 með einkunnina 3,754. Í flokki stofnana með færri en 20 starfsmenn er Sýslumaðurinn á Austurlandi í 13. sæti af 18. Með einkunnina 3,944. Landsmeðaltalið er 4,104 en sýslumenn og lögregluembætti virðast almennt vera undir því.
Skógrækt ríkisins, sem er með höfuðstöðvar sínar á Egilsstöðum, er í tíunda sæti stofnana með fleiri en 50 starfsmenn og einkunnina 4,1 sem er 0,3 stigum fyrir ofan meðaltal í flokknum. Þær stofnanir eru 79 talsins.
SFR stéttarfélag í almannaþjónustu hefur staðið fyrir valinu á stofnun ársins undanfarin níu ár. Spurningar könnunarinnar skiptast niður í átta þætti: trúverðugleiki stjórnenda, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar og ánægja og stolt. Heildareinkunnin er síðan reiknuð út frá þessum þáttum.
Heildareinkunnin stendur nánast í stað á milli ára. Sem fyrr er lægsta einkunnin hjá stofnunum á sviði löggæslu, dómstóla og fangelsa en hæst meðal þeirra sem eru í verslun og þjónustu. Einkunnin var einnig hærri meðal minni stofnana en þeirra stærri.