Vill að kynjafræði verði skyldufag í framhaldsskóla

ingiborg thordardottir vg 03042013Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður og framhaldsskólakennari úr Neskaupstað, vill að grunnáfangi í kynjafræði verði gerður að skyldufagi á öllum brautum framhaldsskóla. Mikil vakning hafi orðið eftir að nokkrir skólar fóru að kenna kynjafræði sem valfag.

Ingibjörg tók sæti sem varaþingmaður í síðustu viku í fjarveru Steingríms J. Sigfússonar. Í fyrstu ræðu sinni þar benti hún á dæmi Borgarholtsskóla sem hóf að kenna kynjafræði sem valfag árið 2007. Fleiri skólar hafi fylgt í kjölfarið.

„Margir nemendur komu fram í fjölmiðlum og sögðu frá reynslu sinni af námi í kynjafræði. Voru þeir á einu máli um að kynjafræðin hefði ekki aðeins breytt hugmyndum þeirra um stöðu kynjanna heldur hefði hún almennt gert þá meðvitaðri um mannréttindi og lýðræði," sagði Ingjbörg.

Í kynjafræðinni er meðal annars fjallað um vændi, mansal, hinsegin-málefni, stjórnmál, völd, staðalímyndir, klám og klámvæðingu.

Ingibjörg sagði reynslu sína vera að nemendur væru almennt illa að sér í þessum málum og yrðu oft fyrir mikilli uppljómun í tímunum. „Margir nemendur hafa sagt að þeir líti lífið einfaldlega öðrum augum eftir að hafa setið kynjafræðiáfanga.

Leiðin að jafnrétti kynjanna hlýtur að liggja í gegnum menntun og fræðslu. Ef við ætlum að ná fram raunverulegu jafnrétti í þessu samfélagi ættum við að vera með markvissa jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum og ekki síst í framhaldsskólum."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.