„Konur hætta frekar í sveitarstjórnum eftir eitt kjörtímabil“
Undirbúningsnefndinni þótti ástæða til að fjalla sérstaklega um konur í stjórnmálum og það er full ástæða til," segir Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og formaður SSA, en málþingið Konur í stjórnmálum, reynsla og lærdómur, verður haldið á Hótel Héraði á föstudag.„Málþingið er hugsað í tilefni af afmæli 100 ára kosningaréttar kvenna. Þar fjalla fimm konur og einn karl um stjórnmálaþátttöku kvenna á Íslandi í sögulegu og alþjóðlegu ljósi og þær breytingar sem orðið hafa á þátttöku þeirra og viðhorfum.
Einnig verður fjallað um persónulega reynslu kvenna af því að starfa á vettvangi sveitarstjórnarmála og á Alþingi, hvaða hindranir hafi verið á vegi þeirra, hvað hafi hugsanlega breyst síðustu áratugi, hvort kynbreytan skipti enn máli í starfi þess sem leggur stjórnmál fyrir sig, hvernig gangi að samræma starfið öðrum störfum konunnar og hvaða áskorunum karlar og konur standi frammi fyrir þegar um þátttöku í stjórnmálastarfi er að ræða.
„Enn eru konur talsvert færri en karlar í sveitarstjórnum og enn færri ef litið er til þess hvort konur eða karlar leiða framboðslista. Það er líka umhugsunarvert að konur hætta frekar í sveitarstjórnum eftir eitt kjörtímabil og væri full ástæða til að ræða hvaða ástæður liggja að baki. Það skiptir máli að reyna að vekja áhuga beggja kynja á að taka þátt í umræðu um samfélagið og til þátttöku í stjórnmálum," segir Sigrún.
Málþingið haldið á vegum Fljótsdalshéraðs með stuðningi frá sjóði Framkvæmdanefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Hefst það klukkan 13:30 og lýkur klukkan 16:00. Allir eru velkomnir.
Dagskrá málþingsins er eftirfarandi:
Setning: Dagmar Ýr Stefánsdóttir, fulltrúi í undirbúningshópi málþingsins
- Karlveldið lagt að velli (friðsamlega): Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafns Íslands og formaður Framkvæmdanefndar um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna
- Stjórnmálaþátttaka íslenskra kvenna í alþjóðlegum samanburði: Rósa Guðrún Erlingsdóttir, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í jafnréttismálum í velferðarráðuneytinu
- Úr Reynslubankanum : Arnbjörg Sveinsdóttir, atvinnurekandi, forseti bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar og fyrrverandi alþingiskona
- Áskoranirnar 100 árum síðar – brjóstabylting og kynskiptur vinnumarkaður: Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður með reynslu úr sveitarstjórnarmálum, menntamálum og lífi og starfi á Austurlandi
- „Ertu maðurinn hennar Kötu? Hvað er að frétta af tvíburunum?" Bjarni Bjarnason, rithöfundur
- Togstreita: Sigrún Blöndal, húsmóðir, kennari, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og formaður SSA